Lífið

Ein­faldar leiðir fyrir and­lega vel­líðan um há­tíðirnar

Svava Marín Óskarsdóttir skrifar
Sara Snædís minnir á mikilvægi þess að staldra við í augnablikinu og anda djúpt.
Sara Snædís minnir á mikilvægi þess að staldra við í augnablikinu og anda djúpt.

„Desember er svo fallegur mánuður en á sama tíma erum við oft á yfirsnúningi því það er margt sem þarf að huga að. Nú þegar jólin eru á næsta leiti er mikilvægt að gera hluti fyrir okkur sjálf, róa taugakerfið og leyfa okkur að njóta hátíðarinnar sem best,“ segir Sara Snædís Ólafsdóttir, heilsuþjálfari og stofnandi Withsara.

Sara Snædís gefur lesendum Vísis nokkur góð og einföld ráð hvernig má minnka streitu og álag í aðdraganda jólanna. Hún segir mikilvægt að muna að draga andann djúpt og njóta þess að staldra við í augnablikinu.

„Munum hvaða neikvæðu áhrif streita hefur á okkur bæði líkamlega og andlega og reynum okkar allra besta að koma í veg fyrir að hún nái of miklum tökum á okkur,“ segir Sara Snædís.

Nokkur ráð sem hjálpa til við að róa taugakerfið

Byrjaðu daginn rólega

Stilltu vekjaraklukkuna 15 mínútum fyrr en vanalega og eigðu smá stund með sjálfum þér áður en allt fer á fullt á heimilinu. Kveiktu á kertaljósum, settu á rólega tónlist, helltu þér upp á te og njóttu þess að sitja í kyrrðinni. Gott er að skrifa niður nokkra hluti sem þú vilt ná úr deginum, hlusta á hugleiðslu eða bara sitja í ró og næði.

Róandi kvöldrútína fyrir betri svefn

Eftir langan dag getur það oft tekið tíma að ná sér niður eftir daginn. Það eru ýmsar leiðir sem hægt er að fara til þess að ná ró fyrir svefninn sem hjálpar við að tryggja betri svefn og róa kerfið niður. Fyrst og fremst er mikilvægt að takmarka skjánotkun fyrir svefninn og slökkva á öllum tækjum að minnsta kosti einni klukkustund áður en þú leggst upp í rúm. Þá er gott að drekka magnesíum eða fara í magnesíum bað. 

Góð húðrútína, þar sem t.d. gua sha er notað er frábær leið til að róa kerfið. Að taka mjúkar teygjuæfingar og öndunaræfingar er einnig góð leið til þess að slaka vel á kerfinu fyrir nóttina.

Fáðu þér ferskt loft daglega

Við skulum ekki vanmeta ferskt loft og göngutúra. Á Íslandi gleymum við oft að fara út að viðra okkur því veðrið er kannski ekki oft upp á marga fiska, engu að síður hvet ég þig til þess að fara út á hverjum degi sama hvernig viðrar.

Andaðu að þér ferska loftinu, hreyfðu þig, þó það sé ekki nema í 10-15 mínútur. Það er svo mikil núllstilling og nærandi að fara út og fá sér ferskt loft - klæddu þig bara eftir veðri!

Taktu djúpann andardrátt

Öndunin okkar spilar risa stóran þátt í því að núllstilla kerfið okkar og hjálpar taugakerfinu að slaka á. 

Um leið og þér líður eins og það sé að myndast spenna eða streita í líkamanum staldraðu þá aðeins við og taktu djúpann andardrátt á meðan þú telur upp á fjóra. Haltu svo inn í þér andanum í aðra fjóra og andaðu svo út fjóra líka. Taktu þennan hring eins oft og þú þarft og finndu hvernig kerfið þakkar þér fyrir eftir á. 

Það jafnast ekkert á við töfralausnir eins og þessar þegar við þurfum nauðsynlega að núllstilla okkur og finna ró.

Hreyfðu þig smá á hverjum degi

Það er eflaust ekki efst á lista allra að ná inn æfingu á þessum tíma árs, þó svo að mörgum finnist það aleg ómissandi. Ef þér líður eins og það sé ekki tími fyrir æfingu mundu þá gullnu regluna um að öll hreyfing telur. Þó svo að þú náir ekki nema 10-15 mínútum á dag er það betra en engin hreyfing og nauðsynleg fyrir líkama og sál. 

Sara Snædís kenndi áður líkamsrækt á Íslandi en býr nú í Svíþjóð ásamt fjölskyldu sinni.With Sara
Settu þér markmið að hreyfa þig fimm sinnum í viku í 10 til 15 mínútur, eða lengur ef tími gefst. 

Það að stífna upp í líkamanum, fá vöðvabólgu og höfuðverk vegna hreyfingaleysis og álags er ekki þess virði og við skulum gera okkar besta til þess að sporna við því.

Hugmyndir af æfingum þegar líkaminn upplifir mikla streitu og álag

Barnið: Sestu á hælana og leyfðu stóru tánnum að snertast. Hnéin opnast út til hliðar og svo leggur efri líkamann fram eins og langt og þú kemst. Hendurnar teygjast fram og þú tekur 8-10 djúpa andardrætti hér

Mjaðmaopnun: Þú byrjar á fjórum fótum og gengur svo hægri fætinum á milli handa. Þaðan sendir þú mjaðmir fram til að opna mjaðmasvæðið en passar að hnéið fari ekki fram fyrir tær. Ef það gerist þarftu að færa fótinn enn framar. Hendur eru annað hvort í gólfi, ofaná lærinu eða teygir þær upp í loft. Heldur hægri hliðinni 8-10 andardrætti og skiptir svo um hlið.

Hliðarteygja: Annað hvort sitjandi eða standandi staða þar sem þú teygir báðar hendur upp í loft. Grípur hægri hendinni utan um vinstri hönd og togar hana upp í loft og svo hallar þú þér yfir til hægri. Hér ættir þú að finna góða teygju á síðunni og upp bakið. Halda 4-6 andardrætti og gera svo hinu megin.

Frambeygja: Finna standandi stöðu og rúlla bakinu niður þar sem höfuðið leiðir alveg þar til þú kemst ekki lengra. Leyfir þér að hanga þar niðri, grípur um olnboga og ruggar þér frá hægri til vinstri. Hér má alveg beygja hnéin ef það þarf og muna eftir að anda. Halda í 4-6 andadrætti og rúlla svo rólega upp aftur. Gott að endurtaka 4-5 sinnum.


Teygjutími sem virkar

Gefðu þér tólf mínútur til þess að gera slakandi æfingar sem róa taugakerfið og losa um streitu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.