Viðskipti innlent

Stefnu Sam­skipa gegn Eimskipum vísað frá dómi

Kjartan Kjartansson skrifar
Samkeppnisyfirlitið gaf út umfangsmikla skýrslu um samráð Eimskipa og Samskipa sem það sagði hafa staðið yfir í fjölda ára. Eimskip gerðu sátt en Samskip ekki.
Samkeppnisyfirlitið gaf út umfangsmikla skýrslu um samráð Eimskipa og Samskipa sem það sagði hafa staðið yfir í fjölda ára. Eimskip gerðu sátt en Samskip ekki. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði stefnu Samskipa á hendur Eimskipum frá í dag. Samskip stefndi Eimskipum vegna tjóns sem fyrirtækið taldi sig hafa orðið fyrir vegna sáttar Eimskipa við Samkeppniseftirlitið.

Eimskip segir í tilkynningu sem fyrirtækið sendi frá sér áðan að málinu hefði verið vísað frá héraðsdómi í dag. Uppkvaðning úrskurðar í málinu var á dagskrá Héraðsdóms Reykjavíkur klukkan ellefu.

Samskip stefndu Eimskipum og Vilhelm Má Þorsteinssyni, forstjóra Eimskipa, og krafðist þess að bótaskylda síðarnefnda skipafélagsins yrði viðurkennd vegna meintra ólögmætra og saknæmra athafna í tengslum við sátt Eimskipa við Samkeppniseftirlitið árið 2021. 

Ekki var kveðið á um fjárhæðina en lögmaður Samskipa sagði í apríl að tjónið gætið hlaupið á milljörðum króna.

Málið má rekja til þess að Eimskip féllst á að greiða einn og hálfan milljarð króna í sekt vegna ólögmæts samráðs við Samskip samkvæmt sáttinni. Samskip gerði ekki sátt í málinu og var sektað um 4,2 milljarða króna í fyrra.

Í stefnunni var vísað til yfirlýsinga í sátt Eimskipa og Samkeppniseftirlitsins um samráðið og tjóns sem Samskip hefðu orðið fyrir vegna þess að Eimskip skuldbundu sig til þess að hætta viðskiptalegu samstarfi við samkeppnisaðilann.

Hæstiréttur samþykkti í dag að veita Samskipum leyfi til að áfrýja máli þeirra gegn Samkeppniseftirlitinu. Landsréttur hafði komist að þeirri niðurstöðu að Samskip gætu ekki skotið sátt Eimskipa til áfrýjunarnefndar samkeppnismála.


Tengdar fréttir

Sam­skip fá áheyrn Hæstaréttar í sam­keppnis­málinu

Hæstiréttur hefur samþykkt beiðni Samskipa um áfrýjunarleyfi í máli þeirra á hendur Samkeppniseftirlitinu. Landsréttur taldi Samskip ekki geta skotið sátt sem Eimskip gerði við eftirlitið til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Sáttin gerir það að verkum að Eimskip og Samskip mega ekki eiga viðskipti við sömu fyrirtæki í flutningsþjónustu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×