Erlent

Nóbelsverðlaunahafar mót­mæla út­nefningu Kennedy

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Kennedy verður seint sagður maður vísindanna.
Kennedy verður seint sagður maður vísindanna. Getty/Washington Post/Jabin Botsford

Fleiri en 75 Nóbelsverðlaunahafar á sviði heilbrigðisvísinda, efnafræði, eðlisfræði og hagfræði hafa undirritað bréf þar sem skorað er á öldungadeildarþingmenn í Bandaríkjunum að staðfesta ekki Robert F. Kennedy Jr. í embætti heilbrigðisráðherra.

Að sögn Richard Roberts, sem vann til Nóbelsverðlauna í lífeðlisfræði árið 1993, sá hópurinn sig tilneyddan til að grípa til varna fyrir hönd vísindanna gegn Kennedy, sem hefur sótt að bæði vísindamönnum og stofnunum sem heyra undir heilbrigðisráðuneytið.

Nóbelsverðlaunahafarnir segja Kennedy hvorki hafa menntun né reynslu til að gegna embættinu og þá séu uppi verulegar efasemdir um að hann sé hæfur til að fara fyrir ráðuneytinu sem sé falið að standa vörð um líf og heilsu almennings.

Í bréfinu segir meðal annars að útnefning Kennedy sé ógn við lýðheilsu og þá grafi hún undan leiðtogahlutverki Bandaríkjanna í heilbrigðisvísindum. Andstaða Kennedy við forvarnir á borð við bólusetningar og flúor í drykkjarvatni stofni velferð almennings í hættu.

Kennedy hefur talað fyrir ýmsum samsæriskenningum og meðal annars sagt bólusetningar orsök einhverfu og hafnað því að H.I.V. valdi alnæmi. Þá hefur hann haldið því fram að kórónuveiran hafi verið sniðin að ákveðnum hópum og hlíft öðrum.

Kennedy hefur einnig sagt að fangelsa ætti vísindamenn sem vinna að þróun bóluefna og hótað því að reka fjölda starfsmanna opinbera heilbrigðiskerfisins ef hann kemst í ráðherrastól.

Talsmenn Donald Trump, sem útnefndi Kennedy, svöruðu bréfinu í gær og sögðu almenning langþreyttan á að fara að boðum og bönnum „elítunnar“. Kennedy myndi knýja fram þær breytingar sem Trump vildi gera á meingölluðu heilbrigðiskerfi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×