Innlent

Árni Indriða­son er látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Árni Indriðason starfaði um árabil við Menntaskólann í Reykjavík.
Árni Indriðason starfaði um árabil við Menntaskólann í Reykjavík. Bridgesamband Íslands

Árni Indriðason, menntaskólakennari og sagnfræðingur, er látinn, 74 ára að aldri.

Greint er frá andlátinu í Morgunblaðinu í morgun þar sem segir að Árni hafi andast á Landspítalanum í Fossvogi síðastliðinn miðvikudag.

Árni fæddist í Reykjavík 3. júní 1950, sonur Indriða Sigurðssonar stýrimanns og Erlu Árnadóttur bókavarðar. Hann ólst upp á Seltjarnarnesi, varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1970 og lauk cand. mag. Prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 1977.

Eftir útskrift úr háskóla byrjaði Árni að kenna sögu við Menntaskólann í Reykjavík þar sem hann kenndi sérstaklega sögu Forngrikkja og Rómaveldis. Hann starfaði við MR allan sinn starfsferil og gegndi þar ýmsum trúnaðarstörfum.

Árni lagði kapp á handbolta á sínum yngri árum og spilaði meðal annars með liði Víkinga undir stjórn Bogd­an Kowalczyk, sem var fyrir nokkru útnefnt besta hand­boltalið Íslands­sög­unn­ar. Síðar átti hann eftir að þjálfa handbolta samhliða kennslu. Á ferli sínum lék hann sextíu með handboltalandsliðinu og var um tíma fyrirliði liðsins.

Eftirlifandi eiginkona Árna er Kristín Klara Einarsdóttir, fyrrverandi skrifstofustjóri. Hann lætur eftir sig fjögur börn – Hjalta, Einar Baldvin, Erlu Kristínu og Hildi – og átta barnabörn.

Útförin fer fram frá Neskirkju 16. desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×