Fótbolti

„Held að þetta sé ekki al­gengt á Ís­landi“

Aron Guðmundsson skrifar
Vigfús Arnar Jósefsson er njósnari (e.scout) fyrir danska úrvalsdeildarfélagið Lyngby hér á landi
Vigfús Arnar Jósefsson er njósnari (e.scout) fyrir danska úrvalsdeildarfélagið Lyngby hér á landi Vísir/Bjarni

Ís­lands­tenging er danska úr­vals­deildar­félaginu Lyng­by mikilvæg. Þess vegna hefur félagið ráðið njósnara hér á landi, Vig­fús Arnar Jósefs­son. Hann mun benda þeim á og fylgjast með efni­legum og góðum leik­mönnum á Ís­landi. 

Vig­fús hefur verið sækja nýja þjálfara­gráðu hjá KSÍ og hluti af náminu var heimsókn til danska úr­vals­deildar­félagsins og Ís­lendingaliðs Lyng­by. Eftir þá heimsókn kviknaði neisti.

„Þar voru menn hjá félaginu með fyrir­lestur þar sem að þeir fóru yfir það hvernig þeir leita að leik­mönnum og þar kom greini­lega mjög sterkt í ljós að ís­lenski markaðurinn er mjög mikilvægur fyrir þá. Eftir að ég kom aftur heim til Ís­lands fór ég að hugsa hvort ég gæti mögu­lega eitt­hvað að­stoðað þá. Með að­stoð góðra manna komst ég í sam­band við þá og við ræddum saman. Þá kom einnig í ljós að þeir voru að leita sér að full­trúa á Ís­landi til að koma fram fyrir sína hönd. Þetta passaði mjög vel saman og við náðum mjög vel saman eftir það og ég er bara spenntur fyrir því að hefja störf.“

Vig­fús hafði áhuga á því að kynnast at­vinnu­manna­um­hverfinu í fót­boltanum betur og því féll þetta starf fyrir Lyng­by vel við hans plön.

„Ég starfaði bæði hjá Leikni og KR sem þjálfari og var hjá fleiri félögum sem leik­maður. Mig langar að kynnast og læra meira út frá þessu at­vinnu­manna­um­hverfi. Ég fæ tækifæri til þess hjá Lyng­by. Ég mun vera virkur í því að fara út til Dan­merkur og heimsækja þá, vera þátt­takandi með þjálfara­t­eyminu á æfingum og kynnast þeirra starfi betur. Það er líka eitt­hvað í þessu fyrir mig og þetta starf mun klár­lega líka auka skilning minn á ís­lenska leik­manna­markaðnum. Þetta er gott sam­komu­lag milli mín og Lyng­by. Ég er mjög spenntur.“

Og skildi engan undra að Lyng­by vilji halda góðri tengingu við Ís­land. Félagið hefur góða reynslu af Ís­lendingum. Freyr Alexanders­son, kunningi Vig­fúsar úr Breiðholtinu, vann krafta­verk þar á sínum tíma og þá hafa núverandi sem og fyrr­verandi ís­lenskir leik­menn Lyng­by gert sig gildandi.

Freyr Alexandersson var og verður í miklum metum í Lyngby.Getty/Jan Christensen

„Þeim finnst þessi ís­lenska tenging mjög mikilvæg. Vilja halda henni og hafa hana sterka. Bæði kom Freyr þarna inn sem þjálfari og gerði mjög góða hluti og það sem að hann gerði hjá félaginu lifir greini­lega enn mjög sterkt. Þá hafa ís­lensku strákarnir sem hafa spilað þarna einnig gert mjög vel. Þeir horfa bara mjög sterkt á þennan ís­lenska leik­manna­markað sem og ís­lenska fót­bolta sam­félagið. Þeir vilja bara vera vel tengdir. Að fólk viti af þeim hér á Ís­landi. Danir eru bara of­boðs­lega hrifnir af vinnu­fram­laginu og viðhorfinu sem snýr að því að leggja hart að sér hjá Ís­lendingum. Þetta er risastór sölu­punktur fyrir ís­lenska fót­bolta­menn. Það er horft í þetta.““

Vig­fús og Freyr þekkjast frá fyrri tíð í Breiðholtinu og var Freyr ekki með puttana í þessari ráðningu Lyng­by eins og margir myndu kannski halda.

„Ég heyrði alveg í honum varðandi þetta þegar að ég var að hugsa um þetta. Hann hjálpaði mér að koma þessu af stað en annars er hann ekkert í þessu. En auðvitað fékk ég að­stoð frá Freysa við þetta. Þekki hann vel frá fyrri tíð. Við erum góðir félagar.“

Andri Lucas Guðjohnsen reyndist Lyngby heldur betur dýrmætur á sínum tímaGetty/Lars Ronbog

Til­finningin er sú að ekki sé al­gengt að er­lend félög séu með njósnara í starfi á Ís­landi dag frá degi en metnaður Lyng­by felst í því að vera virkir í ís­lensku fót­bolta­sam­félagi

„Ég held að þetta sé ekki al­gengt á Ís­landi. Þeir vilja bara vera mjög virkir í ís­lensku fót­bolta sam­félagi, á markaðnum og að fólk viti af þeim. Þeir eru einnig að horfa til þess að geta mögu­lega farið í sam­starf við ís­lensk félög og eru opnir fyrir öllu. Vilja bara tengjast ís­lenska fót­bolta­sam­félaginu í heild sinni. En auðvitað skiptir það máli að sjá efni­lega og góða fót­bolta­menn, finna þá. Það er verið að skoða leik­menn í aðallið þeirra og alveg niður í 15 ára liðið. Það er allt undir þar.“

Starfs­stöð Vig­fúsar verður hér á landi en hvernig sér hann vinnu sína fyrir félagið ganga fyrir sig.

„Við erum með ákveðið vinnu­flæði í huga. Tölum um svo­kallað skugga­lið (e.shadow team). Ég verð sem sagt með nokkur skugga­lið í gangi og er með ákveðna leik­menn til að fylgjast með. Auðvitað frétta þeir úti svo af ein­hverjum leik­mönnum í gegnum um­boðs­menn og annað. Ég fer þá í að hjálpa þeim að finna upp­lýsingar um þá leik­menn. 

Töl­fræði er orðin risastór í fót­boltanum og maður getur fundið töl­fræði yfir alls konar hluti en hún segir ekki alla söguna. Hún segir ekkert um persónu­eigin­leika leik­manns til dæmis. Þá er gott að hafa ein­hvern sem er tengdur nær leik­mönnunum og getur fengið ýmsar upp­lýsingar. Við erum með þetta vinnu­flæði, þessi skugga­lið og ég er að fylgjast með leik­mönnum. Ég mun vera mjög virkur í því að mæta á ung­linga­lands­liðsæfingar sem og aðrar lands­liðsæfingar. Ég mun mæta á leiki hjá liðum og fylgjast með. Horfa á fullt af fót­bolta og meta leik­menn. Það er al­gjör snilld.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×