Erlent

Í­trekar hótanir um að hækka tolla á Kína, Mexíkó og Kanada

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Hugmyndir Trump um að hækka tolla eru afar umdeildar.
Hugmyndir Trump um að hækka tolla eru afar umdeildar. AP/Alex Brandon

Donald Trump, sem tekur við forsetaembættinu í Bandaríkjunum 20. janúar á næsta ári, hefur ítrekað hótanir sínar um að hækka tolla á innfluttar vörur frá Kína, Mexíkó og Kanada verulega á fyrstu dögum sínum í embætti.

Trump hamraði mjög á þessu í kosningabaráttunni og í nýrri færslu á samfélagsmiðli sínum Truth Social segir hann að fyrsta verk hans í embætti verði að gefa út forsetatilskipun þar sem 25 prósenta tolli verði umsvifalaust skellt á allar vörur sem koma frá Mexíkó og Kanada. 

Tollarnir verði í gildi uns yfirvöld í löndunum koma böndum á það sem hann kallar „stjórnlausan ólöglegan innflutning“ á eiturlyfjum og fólki. 

Þá segir hann að sérstakur tíu prósenta aukatollur verði settur á kínverskar vörur, uns stjórnvöld þar í landi koma í veg fyrir ólöglegan innflutning á ópíóðum frá Kína til Bandaríkjanna. 

Breska ríkisútvarpið fjallar um málið og segir að ef Trump standi við stóru orðin muni það setja öll samskipti Bandaríkjanna við þessi þrjú helstu viðskiptalönd sín í verulegt uppnám.

Þá virðist hann munu brjóta gegn viðskiptasamningi milli Bandaríkjanna, Mexíkó og Kanada, sem hann undirritaði sjálfur og tók gildi árið 2020.

Trump hefur haldið því fram að tollarnir munu koma harðast niður á umræddum ríkjum, bandarískum neytendum til hagsbóta. Þetta segja flestir hagfræðingar að sé afar misvísandi, svo ekki sé meira sagt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×