Innlent

Fóru í óboðað eftir­lit vegna á­bendinga um slæman að­búnað leikskólabarna

Lovísa Arnardóttir skrifar
Í umræðum í Facebook-hópnum Mæðratips er bæði rætt um vanrækslu barna á leikskólanum, slæman aðbúnað og lélegt leikskólastarf.
Í umræðum í Facebook-hópnum Mæðratips er bæði rætt um vanrækslu barna á leikskólanum, slæman aðbúnað og lélegt leikskólastarf. Vísir/Anton Brink

Reykjavíkurborg hafa borist ábendingar um slæman aðbúnað barna og óviðunandi leikskólastarf á leikskólanum Lundi í Kleppsgörðum í Reykjavík. Starfsfólk borgarinnar fór í óboðað eftirlit í leikskólanum í dag og varði bróðurparti dagsins á leikskólanum.

Stjórnendur skólans hafa verið boðaðir á fund vegna málsins á mánudag. Þetta segir Hjördís Rut Sigurjónsdóttir upplýsingafulltrúi hjá Reykjavíkurborg. Þá segir hún að vinnslu málsins verði haldið áfram í næstu viku. 

Tilefni heimsóknar starfsmanna borgarinnar eru ábendingar til borgarinnar um aðbúnað barna og um leikskólastarfið sjálft. Hjördís segir borginni hafa borist nokkrar tilkynningar en vildi ekki fara nánar út í efni þeirra eða hvaðan þær komu. 

Skilin eftir í köldum herbergjum og fari ekki út

Leikskólinn var til umræðu í Facebook-hópnum Mæðratips í vikunni. Fyrrverandi starfsmaður leikskólans setti þar inn færslu þar sem hún sagði börnin aldrei fara út að leika, að ekkert skipulagt starf væri í leikskólanum og að flest börnin væru grátandi mest allan daginn og að væflast um í herbergjunum. 

Þá sagði hún börnin reglulega skilin eftir í litlum og köldum herbergjum með gömul og óspennandi leikföng. Í þessum herbergjum væru þau frá því að þau mæti um klukkan 8 og til klukkan 11. Þá fari þau að borða og leggja sig. Eftir það fari þau aftur í herbergin.

Þá sagði hún matinn eins allar vikur og að á leikskólanum starfi of fáir starfsmenn og fáir skilji íslensku. Þá sagði hún einnig starfsmenn reglulega pirra sig á börnunum.

Þó svo að leikskólinn sé sjálfstætt starfandi ber Reykjavíkurborg að sinna eftirliti. Málið er nú til rannsóknar hjá borginni.Vísir/Anton Brink

„Þetta á svo mikið sameiginlegt með geymslu, börnin finna líka alveg fyrir því að það sé meira eins og þau séu í geymslu á meðan mamma og pabbi eru að vinna,“ segir starfsmaðurinn fyrrverandi í færslunni sem nú hefur verið tekin út.

Ráðlagt að skilja barn eftir bundið í vagni

Fjölmargir skrifuðu athugasemdir við færsluna og þar á meðal aðrir fyrrverandi starfsmenn sem töluðu á svipuðum nótum.

„Ég hef sömu sögu að segja, ég var þarna í tæpa 3 mánuði og svo fékk ég nóg og tók stelpuna mína af leikskólanum,“ segir ein á meðan önnur segir: 

„Ég vann þar í stuttan tíma og það var nákvæmlega svona.“

Sú þriðja segist hafa unnið þarna í stuttan tíma og að það hafi verið skelfilegt.

„Var ráðlagt að skilja barn eftir í vagni inni í herbergi þar sem það var bundið niðri og það látið gráta. Barnið var í aðlögun og átti bara að grenja þetta úr sér. Þá var aldrei farið út,“ segir hún og að börnin hafi ekki mátt drekka vatn í matartíma.

Ekki náðist í Valgerði H. Valgeirsdóttur leikskólastjóra til að fá viðbrögð vegna eftirlitsheimsóknarinnar og umræðu um leikskólann á Mæðratips.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×