Örebro greinir frá tíðindunum á heimasíðu félagsins. Valgeir hefur verið á mála hjá sænska félaginu frá árinu 2022 en lék áður með HK hér heima. Hann fór einnig til skamms tíma sem lánsmaður frá HK til Brentford á Englandi veturinn 2020 til 2021.
„Nú þegar tími minn hjá ÖSK er á enda, horfi ég til baka á síðustu tvö og hálft ár. Jafnvel þó gengið hafi ekki alltaf verið eins og stefnt var að mun ég alltaf bera með mér allar minningarnar frá tíma mínum í Örebro,“ er haft eftir Valgeiri í tilkynningu sænska félagsins.
Valgeir er 22 ára gamall hægri kantmaður og bakvörður sem lék 56 deildarleiki fyrir HK áður en hann hélt út. Hann á að baki ellefu landsleiki fyrir U21 landsliðið.
Í viðtali við Fótbolti.net í síðasta mánuði sagðist Valgeir ekki útiloka það að koma heim til Íslands í vetur. Hann hefur verið orðaður við Víking, Val og Breiðablik.