Leikurinn var hnífjafn frá fyrstu mínútu og munaði aðeins einu marki í hálfleik. Þar voru það gestirnir frá Georgíu sem leiddu, staðan 12-13.
Síðari hálfleikur var svipaður og skiptust liðin á að leiða með einu marki. Grikkir náðu upp tveggja marka forystu þegar tæplega fimm mínútur lifðu leiks en þegar 23 sekúndur voru til leiksloka var staðan jöfn 26-26.
Nikolaos Passias reyndist hins vegar hetja heimamanna þegar hann skoraði sigurmark leiksins þegar aðeins fjórar sekúndur voru til leiksloka, lokatölur 27-26.
Achilleas Toskas og Nikolaos Liapis voru markahæstir í liði Grikklands með sjö mörk hvor á meðan Giorgi Tskhovrebadze skoraði 11 mörk í liði Georgíu.
Ísland mætir Bosníu í Laugardalshöll í kvöld. Uppselt er á leikinn sem verður í beinni textalýsingu á Vísi. Textalýsingin fer í loftið 18.45 og leikur hefst 19.30.