Innlent

Skorinn með hníf á skemmti­stað í mið­bænum

Jón Þór Stefánsson skrifar
Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Lögreglan var kölluð út að skemmtistað í miðbæ Reykjavíkur í nótt vegna slagsmála. Lögreglu barst tilkynning um að hnífur hefði verið dreginn upp og einn einstaklingur skorinn með honum.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, en þar segir að grunaður árásarmaður hafi fundist skömmu síðar og honum gert að gista í fangageymslu.

Í umdæmi Lögreglustöðvar þrjú, sem sér um Kópavog og Breiðholt, var lögreglan kölluð út vegna líkamsárásar þar sem nokkrir veittust að einum. Í dagbókinni segir að sá sem hafi orðið fyrir árásinni hafi hlotið einhverja áverka og að málið sé í rannsókn.

Þá er greint frá tveimur málum í umdæmi lögreglustöðvar eitt, sem sér um Austurbæ, Miðbæ, Vesturbæ og Seltjarnarnes. Annars vegar hafði lögreglan afskipti af manni sem var að áreita starfsfólk verslunar. Fram kemur að maðurinn hafi verið ölvaður og hann neitað að fara af svæðinu þegar lögreglu bar að garði. Hann var handtekinn, fluttur á lögreglustöð og sektaður vegna málsins.

Hins vegar var lögreglan kölluð til vegna einstaklings sem var ofurölvi og til vandræða á skemmtistað. Þegar lögregla kom á vettvang og færa átti einstaklinginn í lögreglubifreiðina er hann sagður hafa sparkað í einn lögreglumanninn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×