Sport

Fyrr­verandi fram­herji Man. Utd at­vinnu­maður í tennis

Sindri Sverrisson skrifar
Diego Forlán raðaði inn mörkum í fótboltanum en er nú farinn að skora stig í tennis.
Diego Forlán raðaði inn mörkum í fótboltanum en er nú farinn að skora stig í tennis. Getty/Cathrin Mueller

Úrúgvæinn Diego Forlán, fyrrverandi sóknarmaður Manchester United, mun í næsta mánuði keppa á sínu fyrsta atvinnumannamóti í tennis.

Forlán mun keppa í tvíliðaleik á móti í heimalandi sínu, Úrúgvæ, í næsta mánuði.

Þessi 45 ára gamli íþróttamaður lagði fótboltaskóna á hilluna árið 2019 en hann lék á sínum ferli til að mynda með Manchester United árin 2002-2004, Villarreal, Atlético Madrid og Inter.

Forlán þótti efnilegur tennisspilari á táningsaldri og eftir að hann hætti í fótbolta hefur hann notað spaðann sífellt meira, og keppt í ITF Masters mótum, sem eru fyrir eldri keppendur.

En mótið í næsta mánuði er hluti af Áskorendamótaröðinni, og fær Forlán sérstakt boðssæti (e. wildcard) á mótið til að keppa með Argentínumanninum Federico Coria. Sá er í 101. sæti heimslistans í einliðaleik og komst hæst upp í 49. sæti á síðasta ári.

Forlán lék á sínum tíma alls 98 leiki fyrir Manchester United áður en hann fór til Villarreal og raðaði inn mörkum á Spáni. Hann hlaut gullskóinn í Evrópu árin 2005 og 2009, og varð markakóngur HM 2010 í Suður-Afríku, þar sem Úrúgvæ vann til bronsverðlauna. Þá átti hann sinn þátt í því að Úrúgvæ varð Suður-Ameríkumeistari ári síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×