Íslenski boltinn

„Auð­vitað smá sjokk að heyra að maður sé kominn í sex mánaða bann“

Sindri Sverrisson skrifar
Viðar Örn Kjartansson segir upphæðina sem hann þurfi að greiða CSKA 1948 ekki vera mjög háa.
Viðar Örn Kjartansson segir upphæðina sem hann þurfi að greiða CSKA 1948 ekki vera mjög háa. vísir/Einar

Fótboltamaðurinn Viðar Örn Kjartansson reiknar með því að verða fljótur að greiða upp skuld sína við búlgarska félagið CSKA 1948. FIFA dæmdi Viðar í sex mánaða keppnisbann sem hann getur losnað úr með því að greiða skuldina.

Viðar rifti samningi sínum við búlgarska félagið í nóvember á síðasta ári og var án félags þar til að hann gekk svo til liðs við KA í apríl.

Hann fór hægt af stað með KA en raðaði svo inn mörkum seinni hluta leiktíðar og fagnaði langþráðum fyrsta bikarmeistaratitli félagsins með sigri gegn Víkingi í september. Hann kveðst aldrei hafa grunað að hann yrði dæmdur í keppnisbann vegna viðskilnaðarins við CSKA 1948:

„Ef út í það er farið þá afsalaði ég mér örugglega einhverjum tugum milljóna með því að gefa eftir laun hjá þeim [forráðamönnum CSKA 1948]. En í samningnum [við CSKA 1948] stendur að ef ég skrifa undir hjá liði í efstu deild í Evrópu þá þurfi að greiðast sú upphæð sem þeir borguðu mér við að skrifa undir. Síðan skrifaði ég undir hjá KA og þeir skrifa undir samþykki fyrir félagaskiptum, og svo hætti maður bara að pæla í þessu.

Svo kemur seint í sumar eitthvað frá FIFA sem ég í raun sá ekki sjálfur. Þetta er samskiptaleysi, misskilningur og smá klúður, en aftur á móti mjög auðvelt að leysa,“ segir Viðar þegar hann er beðinn um að lýsa því hvernig hann lenti í sex mánaða keppnisbanni.

Viðar taldi sig sem sagt ekki þurfa að hafa áhyggjur af greiðslunni til CSKA 1948 með því að semja við íslenskt félag.

„Ég sá fyrir mér að þetta gilti bara í Evrópu, þó við séum vissulega þar. Þá hefði klúbburinn þurft að borga þetta til að þeir myndu skrifa undir samþykki,“ segir Viðar.

Viðar Örn Kjartansson skoraði sex mörk í sumar.vísir/Diego

„Vel viðráðanleg upphæð“

Viðar segir að upphæðin sem hann skuldi sé ekki há.

„Nei, ég myndi nú ekki segja það. Þetta er vel viðráðanleg upphæð,“ segir Viðar sem vill þó ekki greina frá því nákvæmlega hve há upphæðin sé. Hluta hennar sé hann þegar búinn að borga og það sé alls ekki svo að um tugi milljóna króna sé að ræða.

„Þetta er í raun og veru ekkert stórmál eftir allt, en auðvitað er smá sjokk að heyra að maður sé kominn í sex mánaða bann upp úr þurru. Þetta verður leyst mjög bráðlega.

Við erum í góðu sambandi við þá núna, vorum það ekki áður, og svo leysist þetta bara og þá verður þessu aflétt. Þetta er ekki flóknara en það en aðdragandinn er flókinn og ruglingslegur, því ég afsalaði mér ansi miklu til þeirra á sínum tíma. Þetta er leiðindamál en vel viðráðanlegt,“ segir Viðar og vill meina að málið yrði leyst enn hraðar ef KA væri í þannig stöðu að mikilvægt hefði verið að hann spilaði lokaleiki tímabilsins.

Viðar Örn Kjartansson átti sinn þátt í fyrsta bikarmeistaratitlinum í sögu KA í sumar.vísir/Diego



Fleiri fréttir

Sjá meira


×