Skoðun

Hættum þessu bulli – enga strúta hér á landi

Rakel Linda Kristjánsdóttir skrifar

Þetta er ekki flókið.

Náum sátt um menntakerfið og málið er dautt.

Eldgamalt vandamál sem þarf að leysa.

Kjör á pari við viðmiðunarstéttir miðað við fimm ára háskólanám.

Kjarasamningur þar sem kennarar þurfa ekki að selja sálu sína til að koma út í plús.

Viðunandi starfsaðstæður sem veikja ekki einstaklinga vegna álags og myglu.

Skýr framtíðarsýn svo allir séu að slá taktinn saman.

Börn eiga rétt á menntakerfi sem er ekki á virku sprengjusvæði.

Kennarar eiga rétt á kjörum og starfsskilyrðum sem hægt er að lifa á eins og aðrir háskólamenntaðir og valda ekki veikindum.

Foreldrar eiga rétt á menntakerfi sem virkar fyrir börnin þeirra.

Hvað er málið ?

Ætlum við virkilega að halda þessari vitleysu áfram ?

Það breytist ekkert ef við breytum ekki neinu. Það er ekki nóg að slökkva elda hér og þar. Það þarf róttækar breytingar og allt samfélagið þarf að koma inn í þá jöfnu.

Það sér það hver heilvita maður að sveitarfélögin eru ekki að ráða við það verkefni að reka grunnskólana.

Ríkið þarf að stíga fast inn.

Á meðan við höldum þessu bulli áfram þá erum við að viðhalda menntakerfi sem dansar á brúninni.

Girðum okkur í brók. Það er til haugur af skýrslum og rannsóknum sem styðja það sem ég er að segja.

Það mun taka tíma að lagfæra það menntakerfi sem við búum við í dag en á meðan stjórnvöld stinga hausnum í sandinn þá munum við halda áfram að búa við það sama.

Strútar eru ekki góðir viðsemjendur.

Höfundur er grunnskólakennari og stjórnarmeðlimur í Kennarafélagi Reykjavíkur




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×