Ásta lék sinn síðasta leik á ferlinum þegar Breiðablik gerði markalaust jafntefli við Val á Hlíðarenda í gær. Leikurinn var hreinn úrslitaleikur um Íslandsmeistaratitilinn en jafnteflið dugði Blikum til að verða meistarar í nítjánda sinn.
Ásta greindi frá þeirri ákvörðun sinni að hætta í fótbolta í myndbandi sem Blikar sendu frá sér.
„Ég er búin að ákveða að hætta í fótbolta. Þetta er síðasta tímabilið mitt. Ég er bara 31. Ég lofaði sjálfri mér fyrir nokkrum árum að ef þessi tilfinning fer að koma eða ég er farin að hugsa út í þetta ætla ég bara að hlusta á hjartað mitt og fylgja því og það er það sem ég er að gera,“ sagði Ásta.
„Ég er mjög sátt með þessa ákvörðun. Ég held ég hafi tekið þessa ákvörðun í byrjun tímabilsins og leyft þessu svolítið að malla. Ég fór inn í tímabilið og vildi njóta og gefa allt í þetta.“
Ásta lék með Breiðabliki allan ferilinn og var gerð að fyrirliða liðsins fyrir tímabilið 2021. Ásta lék alls 176 leiki í efstu deild og skoraði sjö mörk. Hún varð þrisvar sinnum Íslandsmeistari með Blikum og þrisvar sinnum bikarmeistari.
Ásta lék tólf A-landsleiki á ferlinum auk 25 leikja fyrir yngri landslið Íslands.