Skoðun

Orkan á Vest­fjörðum

Þorsteinn Másson skrifar

Síðustu ár hafa verið góð fyrir vestfirskt samfélag en uppbygging í tengslum við fiskeldi, vöxtur Kerecis og fjölgun ferðamanna hafa stóraukið verðmætasköpun í fjórðungnum. Gera má ráð fyrir áframhaldandi vexti og fjárfestingu hjá Kerecis, Kalkþörungafélaginu, fiskeldinu og í sjávarútvegi.

Á sama tíma hefur aðgengi að raforku ekki batnað en þrátt fyrir að umræða um orkumál hverfist að miklu leyti um hægagang og orkuskort má ekki gleyma því sem vel hefur gengið.

Við vestfirðingar duttum aldeilis í ,,heita-pottinn” þegar töluverður jarðhiti fannst á Ísafirði eftir margra ára leit en þrautseigja Orkubús Vestfjarða og mikilvægur stuðningur frá Umhverfis -, orku og loftslagsráðuneytinu skilaði á endanum þessari góðu niðurstöðu.

Ef allt gengur að óskum gæti orkan í ísfirska jarðhitanum jafnast á við 6-8 MW virkjun en tekið skal fram að enn er óvissa með endanlega orku sem hægt er að ná úr þessum jarðhita.

Á Patreksfirði fannst einnig jarðhiti sem gæti nýst til húshitunar og víðar á Vestfjörðum er verið að skoða tækifæri til að nýta jarðhita til verðmætasköpunar.

Það er virkilega ánægjulegt að sjá aukin stuðning við jarðhitaleit á síðustu árum um allt land sem á eftir að skila sér margfalt til baka eins og sýnir sig á Ísafirði.

Og þrátt fyrir áskoranir í raforkumálum hafa vestfirsk fyrirtæki fjárfest í orkuskiptaverkefnum fyrir hundruði milljóna króna á síðustu árum. Þannig hafa þau skipt út þúsundum lítra af olíu fyrir íslenska raforku með dyggum stuðning úr Orkusjóði. Stuðningur Orkusjóðs er skilvirkasta leiðin til að raungera orkuskiptaverkefni en framlög í sjóðinn hafa verið aukin á síðustu árum.

Þessi viðleitni vestfirskra fyrirtækja til að minnka olíunotkun og auka notkun á raforku sýnir enn betur þörfina á meiri orkuöflun og bættu flutningskerfi. Nýlega var samþykkt á Alþingi, heimild til að auka afl núverandi virkjanna án þess að þurfa að fara í gegnum ferli rammaáætlunar sem vonandi skilar sér í auknu framboði af orku á næstu árum.

Áframhaldandi verðmætasköpun á grunni sjálfbærra orku er ein besta leiðin til að viðhalda lífsgæðum og auka velsæld. Það eru góðar fréttir fyrir okkur vestfirðinga sem getum auðveldlega borað eftir meira af heitu vatni og beislað vatnsafl því það er nóg orka á Vestfjörðum.

Höfundur er framkvæmdastjóri Bláma.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×