Handbolti

Loks vann Valur leik

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Björgvin Páll Gústavsson og félagar hans í Val eru komnir á blað í Olís-deildinni.
Björgvin Páll Gústavsson og félagar hans í Val eru komnir á blað í Olís-deildinni. vísir/Diego

Það tók Val fjórar umferðir að vinna leik í Olís-deild karla í handbolta. Eftir þrjár umferðir án sigurs mættu KA-menn á Hlíðarenda og sáu aldrei til sólar, lokatölur 38-27.

Eftir jafnar upphafsmínútur tóku heimamenn öll völd á vellinum og hreinlega völtuðu yfir gestina. Þegar flautað var til hálfleiks var munurinn orðinn átta mörk, 20-12 staðan, og átti sá munur bara eftir að aukast í síðari hálfleik. 

Gestirnir skoruðu vissulega fyrsta mark síðari hálfleiks en svo ekki söguna meir. Valsarar bættu í og skoruðu hvert markið á fætur öðru. Á endanum var ellefu marka munur, lokatölur 38-27.

Ísak Gústafsson var markahæstur í liði Vals með 9 mörk. Þar á eftir kom Andri Finnsson með 6 mörk og þá varði Björgvin Páll Gústavsson 10 skot í markinu. Einar Rafn Eiðsson var markahæstur í liði KA með 7 mörk.

Með sigrinum fer Valur upp í 8. sæti með þrjú stig en KA er stigalaust á botni deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×