Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri var hugsi yfir nýlegum hækkunum stóru viðskiptabankanna þriggja á verðtryggðum húsnæðislánum á fundi Fjármálastöðugleikanefndar Seðlabankans í morgun.
Hækkanir á fasteignamarkaði mun heyra sögunni til
„Út frá fjármálastöðugleika eru þetta ansi brattar hækkanir á verðtryggðum vöxtum. Það mun leiða til þess að greiðslubyrðin mun hækka hjá mörgum heimilum sem hafa skuldbreytt yfir í verðtryggð húsnæðislán. Þetta eru miklar hækkanir á tiltölulega skömmum tíma. Ég held að þessar hækkanir muni leiða til þess að hækkanir á fasteignaverði muni heyra sögunni til. Þetta þýðir það að við erum að fara að sjá yfirvofandi verðbólguhjöðnun,“ segir Ásgeir.
Áhætta fyrir bankanna miðað við núverandi ástand
Hjöðnun verðbólgu geti skapa hættu í fjármálakerfinu miðað við núverandi stöðu þar.
„Bankarnir eru með mikinn verðtryggingaójöfnuð þ.e. þeir eiga mun meira af verðtryggðum eignum en skuldum. Ef verðbólga dettur niður er það áhætta fyrir þá,“ segir Ásgeir.
Aðspurður um hvort að væntingar hans um að verðbólga sé að hjaðna muni hafa áhrif á að stýrivaxtaákvörðun Peningastefnunefndar í næstu viku svarar Ásgeir:
„Ég get engu svarað um það. Ég sagði að þessi mikla hækkun á verðtryggðum vöxtum mun hafa áhrif á fasteignamarkaðinn.“
Umræða um húsnæðisuppbyggingu á villigötum
Húsnæðis-og mannvirkjastofnun og Samtök iðnaðarins hafa ítrekað bent á að ekki sé verið að uppfylla framtíðarhúsnæðisþörf á byggingamarkaði. Ásgeir telur umræðuna á villigötum.
„Það er mjög undarleg umræða sem hefur átt sér stað um byggingageirann. Í fyrsta lagi að það vanti svo mikið húsnæði alls staðar, það sé ekki byggt nóg og að vaxtahækkanir Seðlabankans séu að halda aftur að byggingageiranum. Það sem við sjáum hins vegar er að það er verið að lána út á fullu. Við sjáum heldur ekki að það sé skortur á eignum á sölu. Við erum að sjá merki um að það gangi verr að selja. Við erum heldur ekki að sjá að það sé að draga úr framboði á næstunni. Ég heyrði þessa umræðu um að fasteignaverð sé alltaf að hækka fyrir 10-15 árum. Auðvitað er það ekki þannig. Um leið og það hægir á hagkerfinu mun hægja á fasteignamarkaðnum,“ segir Ásgeir.
