Viðskipti innlent

„Nær engar líkur á vaxtalækkun“

Árni Sæberg skrifar
Hildur Margrét Jóhannsdóttir er starfandi aðalhagfræðingur Landsbankans.
Hildur Margrét Jóhannsdóttir er starfandi aðalhagfræðingur Landsbankans. Vísir/Ívar Fannar

Greiningardeild Landsbankans telur nær engar líkur á að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands lækki stýrivexti á næsta fundi sínum. Næsta vaxtaákvörðun verður kynnt miðvikudaginn 19. nóvember.

Þetta kemur fram í yfirferð greiningardeildarinnar um stöðu efnahagsmála um mánaðamót október og nóvember, sem gefin var út í dag.

Þar er rekið að verðbólga hafi aukist úr 4,1 prósent í 4,3 prósent í október. Fyrir birtingu októbertölunnar hefði verðbólgan haldist á milli 3,8 prósent og 4,2 prósent síðan í febrúar, en hafi nú skotist rétt yfir þetta bil. Verðbólga án húsnæðis hafi aukist á milli mánaða og það sama megi segja um árshækkun allra þriggja kjarnavísitalnanna. „Þetta bendir til þess að undirliggjandi verðbólga hafi aukist.“

Flugfargjöld hækkuðu minna en búist var við

Vísitalan hafi hækkað um 0,47 prósent á milli mánaða, sem sé nokkuð umfram spá deildarinnar um 0,39 prósent hækkun. Ýmsir undirliðir hafi hækkað meira en deildin hafi búist við, svo sem reiknuð húsaleiga, tómstundir og menning og matur og drykkjarvörur. 

Það hafi einna helst komið á óvart að flugfargjöld til útlanda hafi hækkað mun minna en deildin spáði og að verð á hótel- og veitingastaðaþjónustu hafi lækkað þvert á spána.

Ársverðbólga hafi aukist um 0,2 prósentustig á milli mánaða í október. Framlag innfluttra vara og reiknaðrar húsaleigu til ársverðbólgu hafi aukist, en framlag flugfargjalda til útlanda dregist saman. Framlag annarra undirliða hafi lítið breyst.

4,5 prósenta verðbólga í janúar og litlar líkur á lækkun

Deildin geri nú ráð fyrir að vísitala neysluverðs hækki um 0,09 prósent í nóvember, hækki um 0,43 prósent í desember og lækki um 0,13 prósent í janúar. Gangi spáin eftir verði ársverðbólga 4,3 prósent í nóvember og desember og 4,5 prósent í janúar. 

Spáin sé hærri en síðasta spá deildin hafi birt í verðkönnunarvikunni sem skýrist aðallega af tvennu. Í fyrsta lagi hafi verðbólga í október verið meiri en deildin bjóst við og tólf mánaða takturinn verði því áfram hærri næstu mánuði. Hitt sé breytt gjaldtaka af ökutækjum, sem taki gildi um næstu áramót.

„Næsta vaxtaákvörðun verður kynnt miðvikudaginn 19. nóvember. Peningastefnunefnd var einhuga um að halda vöxtum óbreyttum á síðustu tveimur fundum. Við teljum að í ljósi aukinnar verðbólgu, og ekki síst aukinnar undirliggjandi verðbólgu, séu nær engar líkur á vaxtalækkun. Langlíklegast þykir okkur að vöxtum verði áfram haldið óbreyttum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×