Viðskipti innlent

Gengi Alvotech hrynur

Árni Sæberg skrifar
Róbert Wessmann, stofnandi og stjórnarformaður Alvotech.
Róbert Wessmann, stofnandi og stjórnarformaður Alvotech. Vísir/Vilhelm

Gengi hlutabréfa í íslenska líftæknifyrirtækinu Alvotech hefur lækkað um rúmlega 21 prósent frá því að markaðir hér á landi opnuðu í morgun. Þá hefur gengi félagsins í sænsku kauphöllinni lækkað um rúm 23 prósent. Félagið tilkynnti í gær að það fengi að svo stöddu ekki leyfi fyrir hliðstæðulyf við Simponi og lækkaði afkomuspá sína í leiðinni.

Alvotech fær ekki að svo stöddu markaðsleyfi í Bandaríkjunum fyrir líftæknilyfið AVT05 sem er hliðstæðulyf við Simponi. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Alvotech sendi frá sér í gærkvöldi í framhaldi af svarbréfi frá Lyfjastofnun Bandaríkjanna, FDA, sem hafði borist fyrirtækinu. 

Í tilkynningunni kom einnig fram að eftir svar FDA hefði Alvotech endurmetið afkomuspá ársins 2025, sem var kynnt í maí síðastliðnum. Ný spá um heildartekjur ársins sé 570 til 600 milljónir bandaríkjadollara og spá um aðlagaða EBITDA framlegð sé einnig lækkuð í 130 til 150 milljónir bandaríkjadollara.

Lækkun EBITDA spárinnar megi rekja til fjárfestinga í úrbótum á framleiðsluaðstöðunni, sem einnig valdi því að hægja þurfi tímabundið á framleiðslu. Úrbæturnar muni hins vegar einnig styðja við vaxtaráform Alvotech og stuðla að árangursríkri markaðssetningu nýrra hliðstæðna.“

Svo virðist sem markaðurinn hafi ekki tekið vel í fréttirnar en þegar þessi frétt er skrifuð klukkan 10 hefur gengi bréfa félagsins hér heima lækkað um 20,42 prósent og gengið í Svíþjóð um 24,26 prósent. Félagið er einnig skráð í Bandaríkjunum en markaðir opna þar sá bæ síðar í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×