Handbolti

Elín Klara og Sara Sif sáu um Stjörnuna

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Elín Klara var markahæst eins og svo oft áður.
Elín Klara var markahæst eins og svo oft áður. Vísir/Anton Brink

Haukar lentu ekki í teljandi vandræðum með Stjörnuna í 3. umferð Olís-deildar kvenna í handbolta þökk sé frábærri frammistöðu tveggja lykilmanna.

Það var snemma ljóst að Haukar ætluðu sér sigurinn en heimakonur slökuðu heldur á klónni undir lok fyrri hálfleiks og var munurinn aðeins þrjú mörk þegar gengið var til búningsherbergja, staðan þá 13-10.

Í síðari hálfleik var hins vegar fóturinn settur af öllum þunga á bensíngjöfina. Skoruðu Haukar átta mörk í röð áður en Stjarnan náði að svara. Þegar leiktíminn rann út var munurinn kominn upp í 13 mörk, lokatölur á Ásvöllum 29-16.

Sara Sif Helgadóttir átti magnaðan leik í marki Hauka en hún varði 12 skot af þeim 23 sem komu á markið og var með 52 prósent hlutfallsmarkvörslu. Þá varði Elísa Helga Sigurðardóttir tvö skot.

Hvað sóknarleik Hauka varðar þá var Elín Klara Þorkelsdóttir markahæst með sex mörk. Þar á eftir kom Sonja Lind Sigsteinsdóttir með fimm á meðan Sara Odden og Ragnheiður Ragnarsdóttir skoruðu fjögur hvor.

Í liði Stjörnunnar skoruðu Embla Steinþórsdóttir og Anna Lára Davíðsdóttir fimm mörk hvor á meðan Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir varði 10 skot í markinu.

Haukar er í 3. sæti með fjögur stig á meðan Stjarnan er í 6. sæti með tvö stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×