Skoðun

Akur­eyrar­bær greiðir götu kvennaathvarfs á Akur­eyri eins og kostur er

Ásthildur Sturludóttir skrifar

Frá því undirbúningur að opnun kvennaathvarfs á Akureyri hófst sumarið 2020 hefur Akureyrarbær greitt götu þess eftir mætti, enda er okkur fyllilega ljóst mikilvægi þess góða starfs sem Samtök um kvennaathvarf vinna.

Það var því mikið fagnaðarefni og stórt framfaraskref fyrir íbúa Norður- og Austurlands þegar kvennaathvarf á Akureyri var opnað og frá upphafi hefur Akureyrarbær stutt við starfsemina með ráðum og dáð, nú síðast með 1,5 milljóna króna styrk fyrir árið 2024. Okkur er mikið í mun að starfsemi samtakanna nái góðri fótfestu á landsbyggðinni líkt og á höfuðborgarsvæðinu. Þörfin er því miður brýn.

Nú stendur kvennaathvarf á Akureyri hins vegar frammi fyrir alvarlegum húsnæðisvanda frá og með næstu áramótum. Leitað hefur verið til Akureyrarbæjar um húsnæði til leigu en því miður hefur sveitarfélagið ekki yfir að ráða óráðstöfuðu húsnæði sem gæti hentað starfseminni.

Samtök um kvennaathvarf eiga húsnæði til eigin nota á höfuðborgarsvæðinu og hafa nú á prjónunum að byggja betri húsakost syðra. Það væri öllum til heilla að kvennaathvarf á Akureyri kæmist af leigumarkaði og gæti eignast þak yfir höfuðið á Akureyri líka.

Akureyrarbær mun í einu og öllu greiða götu samtakanna til að svo geti orðið og til þess að samfella geti haldist í hinu mikla framlagi þeirra til að stuðla að velferð kvenna sem búa við óboðlegar aðstæður og eiga undir högg að sækja. Við viljum sannarlega allt til þess vinna að kvennaathvarf verði á Akureyri til frambúðar.

Þörfin er því miður brýn.

Höfundur er bæjarstjóri á Akureyri




Skoðun

Sjá meira


×