Erlent

Grunaður tilræðismaður vildi berjast og deyja í Úkraínu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Heimili Routh á Hawaii.
Heimili Routh á Hawaii. AP/Audrey McAvoy

Ryan Wesley Routh, 58 ára, sem handtekinn var í gær grunaður um að hafa haft í hyggju að ráða Donald Trump af dögum, lýsti því yfir á samfélagsmiðlum árið 2022 að hann væri reiðubúinn til að ferðast til Úkraínu og gefa líf sitt til að berjast við Rússa.

Þá greindi hann frá því í viðtali við New York Times árið 2023 að hann hefði farið til Úkraínu í kjölfar innrásar Rússa og freistað þess að fá afganska hermenn til að berjast í stríðinu. Hann hefði einnig fundað með stjórnmálamönnum í Washington til að afla stuðnings við Úkraínu.

Ef marka má blaðamanninn sem tók viðtalið við Routh þá virðist hann hafa verið að slá um sig og í raun ekki haft neina getu til að láta fyrirætlanir sínar verða að raunveruleika.

Routh var handtekinn eftir að lífverðir Trump komu auga á mann í runnum á golfvelli Trump í West Palm Beach í Flórída og skutu í átt að honum. Maðurinn flúði en riffill, myndavél og tveir bakpokar fundust í runnunum.

Trump, sem var á vellinum þegar atvikið átti sér stað, sendi frá sér yfirlýsingar skömmu síðar þar sem hann fullvissaði stuðningsmenn sína um að hann væri heill á húfi og þakkaði lífvörðunum og löggæsluyfirvöldum.

Joe Biden Bandaríkjaforseti, Kamala Harris varaforseti og Tim Walz, varaforsetaefni Harris, hafa öll sent frá sér yfirlýsingar þess efnis að þau séu glöð með að Trump hafi sloppið og að ofbeldi af þessu tagi eigi ekki að eiga sér stað í Bandaríkjunum.

Þá hefur Biden gefið til kynna að öryggisgæsla Trump verði aukin en aðeins um tveir mánuðir eru liðnir frá því að hann varð fyrir skoti á baráttufundi í Pennsylvaníu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×