Íslenski boltinn

Sér­stakir leikir sama hvað er undir: „Alltaf smá auka fiðringur“

Aron Guðmundsson skrifar
Frá fyrri leik HK og Breiðabliks á yfirstandandi tímabili í Bestu deildinni
Frá fyrri leik HK og Breiðabliks á yfirstandandi tímabili í Bestu deildinni Vísir/Diego

Breiða­blik og HK mætast í Kópa­vogs­slag í Bestu deild karla í fót­bolta í dag. Leikurinn er þýðingar­mikill fyrir bæði lið í deildinni en mont­rétturinn í Kópa­vogi er einnig undir. Ómar Ingi Guð­munds­son, þjálfari HK, segir alltaf auka fiðring og spennu fylgja leikjunum við Breiða­blik.

Breiða­blik getur tyllt sér á topp Bestu deildarinnar með jafn­tefli eða sigri gegn grönnum sínum í HK í dag þar sem að liðin mætast í Kópa­vogs­slag og þar með varpað pressunni yfir á Víkinga sem eiga leik á morgun en liðin eru núna jöfn að stigum á toppi bestu deildarinnar. HK-ingar þrá sömu­leiðis stigin þrjú sem myndu sjá til þess að þeir færðust fjær fall­sæti.

„Hann horfir bara nokkuð vel við mér. Þetta er bara þannig leikur að sama hvar liðin eru í töflunni þá er hann alltaf mjög sér­stakur,“ segir Ómar Ingi í sam­tali við Vísi.

Ómar Ingi Guðmundsson, þjálfari HKVísir/Diego

„Minnir menn á hvað það er hrikalega gaman að vinna leiki“

HK-ingar hafa verið að sækja mikil­væga sigra í undan­förnum leikjum. Úr­slit sem gefa til­efni til bjart­sýni þó svo að and­stæðingur dagsins sé það lið í Bestu deildinni sem er á besta skriðinu um þessar mundir.

„Eftir sigurinn gegn Fram, fyrir lands­leikja­hléið, sagði ég að það kæmi dá­lítið betur í ljós seinna í dag hvað sá sigur gaf okkur. Fyrir þetta hlé náðum við inn tveimur heima­sigrum með stuttu milli­bili sem gefa okkur aukna trúa á verk­efnið. Úr­slit sem sjá til þess að það er að­eins léttara yfir okkur og minnir menn á hvað það er hrika­lega gaman að vinna leiki.“

Kópa­vogs­slagir HK og Breiða­bliks hafa verið fjörugir upp á síð­kastið. HK-ingar töpuðu fyrri leiknum gegn Blikum á yfir­standandi tíma­bili í Kórnum eftir að hafa tíma­bilið þar áður unnið báða leiki liðanna í miklum marka­leikjum.

Liðin standa í ströngu á sitt hvorum enda töflunnar fyrir þessa loka­um­ferð Bestu deildarinnar áður en henni verður skipt upp í tvo helminga. Sigur í dag myndi gefa HK-ingum, sem eru núna tveimur stigum frá fall­sæti, mikinn byr undir báða vængi fyrir úr­slita­keppnina á meðan að Breiða­blik má ekki við að mis­stíga sig í bar­áttunni um Ís­lands­meistara­titilinn við ríkjandi meistara Víkings Reykja­víkur þar sem að liðin eru núna jöfn að stigum á toppi deildarinnar.

„Þetta er sér­stakur leikur á þann hátt að sama hvað er undir miðað við sæti í deild þá er alltaf smá auka fiðringur, auka spenningur fyrir því að fara með sigur af hólmi. Auð­vitað er hann mikil­vægur fyrir okkur í þeirri bar­áttu sem að við stöndum nú í og sömu­leiðis er hann mikil­vægur Blikum í þeirra bar­áttu. Bar­áttan fyrir ein­hverjum á­kveðnum mont­rétti og stolti gagn­vart þessum leik næstu daga er líka mönnum ofar­lega í huga.“

Höskuldur Gunnlaugsson er fyrirliði Breiðabliks sem er á fljúgandi siglingu í Bestu deildinni um þessar mundir og þráir að hrifsa Íslandsmeistaratitilinn af Víkingum.Vísir/Anton Brink

Hvað þurfið þið að varast í leik Blika í dag?

„Við þurfum bara að vera til­búnir í leik sem verður spilaður af hárri á­kefð. Blikarnir hafa sýnt það í síðustu leikjum að þeir spila leikina til enda. Spila á háu tempói í gegnum allan leikinn sama hver staðan er. Við þurfum klár­lega að búa okkur undir erfiðan leik og mikla bar­áttu. Upp­lifun okkar af leikjunum tveimur við þá á síðasta tíma­bili gefur þeim sem voru í þeim leikjum extra orku til þess að sækja sigurinn og reyna að endur­lifa þá til­finningu. Þá gírun sem var í kringum þá við­burði.“

Leikur Breiða­bliks og HK í loka­um­ferð deildar­keppni Bestu deildar karla í fót­bolta verður sýndur í beinni út­sendingu á Stöð 2 Sport sem hefst klukkan 16:45.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×