Handbolti

Ís­lendinga­lið Kol­stad mátti þola tap gegn stór­liði Barcelona

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Úr leik kvöldsins.
Úr leik kvöldsins. @ehfcl

Íslendingarnir í Kolstad og liðsfélagar þeirra áttu fínan leik gegn ógnarsterku liði Barcelona í Meistaradeild Evrópu í handbolta í kvöld. Á endanum máttu þeir þó játa sig sigraða, lokatölur í Noregi 30-35.

Munurinn var vissulega orðinn sjö mörk í hálfleik, staðan þá 13-20. Í síðari hálfleik beit Kolstad frá sér og tókst að minnka muninn í aðeins tvö mörk eftir að skora fjögur mörk í röð. Nær komust heimamenn ekki og Börsungar unnu leikinn nokkuð örugglega.

Sveinn Jóhannsson var markahæstur Íslendinganna í liði Kolstad með þrjú mörk. Benedikt Gunnar Óskarsson skoraði eitt mark og gaf tvær stoðsendingar á meðan Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði eitt mark. Í liði Barcelona var Dika Mem markahæstur með sex mörk ásamt því að gefa þrjár stoðsendingar.

Þetta var fyrsti leikur liðanna í riðlakeppninni Meistaradeildarinnar og Barcelona því komið með tvö stig á meðan Kolstad er án stiga.

Í Portúgal skoraði Stiven Tobar Valencia tvö mörk í sjö marka útisigri Benfica á Madeira. Eftir tap í fyrstu umferð er Benfica því komið á blað.

Súrt bikartap í Svíþjóð

Elín Jóna Þorsteinsdóttir varði ekki skot þegar lið hennar Aarhus United tapaði með fimm mörkum gegn Team Esbjerg í dönsku efstu deild kvenna, lokatölur þar 31-26. 

Í Svíþjóð töpuðu Aldís Ásta Heimisdóttir og stöllur í Skara í bikarnum gegn Onnereds. Lokatölur 26-23 sem þýðir að Onnereds vinnur einvígið með minnsta mun, 49-48. Aldís Ásta skoraði fjögur mörk í leiknum.

Þá töpuðu Óðinn Þór Ríkharðsson og félagar í svissneska liðinu Kadetten með tveggja marka mun gegn á heimavelli gegn Kriens, lokatölur 36-38.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×