„Síðastliðinn vetur hönnuðu nemendur skólans þessa ágætu bræður. Smíðakarlarnir eru í fullri stærð og á þeim má finna QR kóða, sem hægt er að skanna með myndavél úr síma til að hlusta á skemmtisögur af þeim bræðrum.
Þau Sunneva Björk Aradóttir, Hörður Högni Skaftason og Bríet Þóra Karlsdóttir, sigurvegarar Dalvíkurskóla í stóru upplestrarkeppninni sáu um upplesturinn og Bil Guðröðardóttir, sem útskrifaðist úr Dalvíkurskóla 2022 teiknaði karlana með aðstoð Skapta myndmenntakennara. Margir nemendur komu síðan að verkefninu á þemadögum sem við vorum með um heimabyggðina vorið 2024,” segir Guðný Sigríður Ólafsdóttir, kennari við skólann og bætir við.

„Nú hafa þeir bræður strokið úr Dalvíkurskóla og hafa komið sér fyrir á göngustígnum góða fyrir ofan skógarreitinn Bögg. Fallegir tréhringir prýða einnig nokkur tré í Bögg, en á þeim eru teiknaðar myndir úr sögunum eftir nemendur. Þetta var skemmtilegt samvinnuverkefni margra nemenda og óhætt að segja að verkefnið samþætti margar námsgreinar, svo sem íslensku, sköpun, samfélagsfræði, upplýsingatækni , náttúrufræði, útivist og hreyfingu.”
Í morgun voru þeir bræður afhjúpaðir við hátíðlega athöfn í Bögg. Nemendur í 4. bekk leiddu söng um Bakkabræður sem Lovísa María Sigurgeirsdóttir samdi textann við, Friðrik Arnarson skólastjóri hélt stutta tölu og síðan var QR kóðinn prófaður og allir hlustuðu á söguna.

Bæjarbúar á Dalvík og íbúar í næsta nágrenni og gestir eru hvattir til að fá sér göngutúr um stígana góðu ofan við og inni í Bögg, heilsa upp á bræðurna og hlusta á skemmtisögur af þeim. Bakkabræður munu dvelja við stígana eitthvað fram á haust, en þá munu þeir flýja í hús og bíða af sér veturinn. Með hækkandi sól næsta vor munu þeir eflaust koma sér fyrir aftur á göngustígnum.
