Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar, segir hug bæjarstjórnar vera hjá þeim sem eiga um sárt að binda vegna þess harmleiks sem varð í Neskaupstað í nótt.
Tveir fundust látnir á heimili sínu og maður var handtekinn í austurbæ Reykjavíkur í dag í tengslum við málið.
„Þetta eru hræðilegir atburðir sem hafa átt sér stað í þessari viku. Hugur okkar er hjá öllum þeim sem eiga um sárt að binda. Það hefur aldrei verið eins mikilvægt og núna að við sem samfélag, hvort sem er hér og um allt land, að við höldum vel utan um hvort annað og styðjum hvort annað,“ segir hann.
„Þegar mikil áföll dynja yfir þá stöndum við öll saman sem einn og taka utan um hvert annað og styðja hvert annað í gengum þetta,“ segir Jón Björn.