Erlent

Segir Trump mögu­lega munu tapa ef hann breytir ekki um stefnu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Graham er dyggur stuðningsmaður Trump.
Graham er dyggur stuðningsmaður Trump. Getty/Win McNamee

Repúblikaninn Lindsey Graham segir Donald Trump eiga á hættu að tapa forsetakosningunum ef hann haldi áfram að ögra og eggja í stað þess að eiga málefnalegar umræður.

Ummælin lét Graham falla í þættinum Meet the Press á NBC, þar sem hann var spurður að hvort hann væri sammála Nikki Haley, sem bauð sig fram gegn Trump en hefur nú lýst yfir stuðningi við hann, þegar hún sagði að Trump og aðrir Repúblikanar ættu að hætta að væla og hætta að tala um kynþátt Kamölu Harris.

„Já,“ sagði Graham. „Ég lít ekki á Kamölu Harris sem brjálæðing,“ sagði hann en Trump hefur ítrekað notað orðið til að lýsa andstæðing sínum. „Ég sé hana sem frjálslyndasta einstaklinginn sem hefur verið útnefndur sem forsetaframbjóðandi í sögu Bandaríkjanna.“

Graham sagði að kosningabaráttan ætti að snúast um stefnumálin; þar myndi Harris eiga í vök að verjast.

Þannig gæti Trump sigrað í kosningunum en ef hann héldi áfram að ögra og eggja myndi hann mögulega tapa þeim.

Trump hefur átt í nokkrum vandræðum eftir að Joe Biden Bandaríkjaforseti dró sig til hlés og lýsti yfir stuðningi við varaforsetann. Það hefur reynst honum erfitt að finna höggstað á Harris og hann því brugðið á það ráð að ráðast að persónu hennar og litarhætti.

Ummæli Graham eru í takt við það sem ráðgjafar Trump eru sagðir hafa ráðlagt; að halda sig við málefnin og láta af persónulegum árásum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×