Mikil ólga hefur verið meðal íbúa Hafnarfjarðar vegna tilætlaðra borteiga sem Coda Terminal, dótturfyrirtæki Carbfix, hyggst koma upp skammt frá Völlunum í Hafnarfirði. Íbúar hafa áhyggjur af áhrifum starfseminnar á grunnvatnið á svæðinu.
6000 manna undirskriftalisti
Verkefnið sjálft gengur út á að leysa koldíoxíð í vatni og dæla í berggrunninn á 350 til þúsund metra dýpi. Ætlunin er að koldíoxíð sé flutt inn frá stóriðju í Evrópu og bundið í vatnsstraumnum neðanjarðar. Íbúahópur afhenti Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra undirskriftalista í gær þar sem rúmlega sex þúsund manns skoruðu á bæjarstjórn að setja verkefnið í íbúakosningu.
Seinna á sama bæjarstjórnarfundi var þó tillögu Jóns Inga vísað til bæjarráðs. Jón Ingi segir meirihlutann vera að leika biðleik og segir enga frekari úrvinnslu munu fara fram í bæjarráði. Ákvörðunin hafi frekar verið „týpísk pólitík að tefja málið.“
„Vinir mínir í bæjarstjórn komu þarna upp hver á eftir öðrum og töluðu hver á eftir öðrum um nauðsyn þess að auka þetta samtal og samráð en höfðu svo ekki hugrekkið til þess að taka skýra afstöðu með málflutningi sínum,“ segir hann í samtali við fréttastofu.
Hljóð og mynd fari ekki saman
Jón Ingi segir tillögu sína ekki snúa með beinum hætti að Coda Terminal-verkefninu í sjálfu sér. Heldur snúist hún um að auka á gegnsæi og senda skýr skilaboð til Carbfix og fjárfesta verkefnisins um hvernig Hafnarfjarðarbær hyggist taka á verkefninu.
Hann segir hljóð og mynd ekki hafa farið saman í málflutningi meirihlutans.
„Í stað þess að auka skýrleika var bara aukið á óvissuna,“ segir hann.
Jón Ingi segist munu passa upp á það að málið komi aftur á borð bæjrastjórnar og að kosið verði um hana.
„Þetta er ákveðinn biðleikur sem er leikinn,“ segir hann.