Árásin átti sér stað á miðbæjarsvæðinu á Akureyri, þar sem hátíðin Ein með öllu fer fram um verslunarmannahelgina, á þriðja tímanum á aðfararnótt laugardags. Sá sem varð fyrir stungunni er enn á sjúkrahúsinu á Akureyri en lögregla sagði að hann væri ekki talinn í lífshættu í gær.
Jóhann Olsen, varðstjóri hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra, staðfestir að sá sem er grunaður um árásina sé ungur karlmaður. Hann og aðrir sem voru í haldi vegna árásarinnar séu nú lausir.
Að öðru leyti segir Jóhann að hátíðin hafi gengið vel þó að alltaf gangi eitthvað á þegar margir komi saman til að skemmta sér. Fjórir fengu þannig að sofa úr sér í fangageymslum lögreglunnar í nótt fyrir ölvun og almennar óspektir.