Körfubolti

Ís­lands­meistararnir fá til sín fyrrum WNBA leik­mann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jasmine Dickey fagnar hér meistaratitli sínum með ástralska liðinu Southside Flyers.
Jasmine Dickey fagnar hér meistaratitli sínum með ástralska liðinu Southside Flyers. Getty/Kelly Defina

Íslandsmeistarar Keflavíkur í kvennakörfunni hafa samið við bandarísku körfuboltakonuna Jasmine Dickey. Það er ljóst að þar fer öflugur leikmaður.

Dickey var á sínum tíma valin númer þrjátíu í nýliðavali WNBA-deildarinnar og spilaði 34 leiki í WNBA með Dallas Wings.

Dickey átti mjög flottan háskólaferil með Delaware skólanum þar sem hún skoraði 25,2 stig og tók 10,2 fráköst í leik á lokaári sínu. Hún hækkaði meðalskor sitt á hverju tímabil með Delaware, fór úr 7,9 stig í leik á fyrsta ári, í 12,4 stig í leik á öðru ári, í 22,6 stig á þriðja ári og loks í 25,2 á lokaárinu.

Á tveimur tímabilum sínum með Wings í WNBA þá skoraði hún 1,5 stig á 5,3 mínútum í leik. Fékk ekki mikið að spila og hefur síðan spilað annars staðar.

Hún fór úr WNBA deildinni til Ítalíu og á síðasta tímabili, 2023-2024, spilaði hún í Ástralíu með Southside Flyers og varð Ástralskur meistari með þeim.

Með Flyers var Dickey með 8,4 stig, 3,4 fráköst og 1,1 stoðsendingu að meðaltali í leik.

Keflavík vann þrefalt á síðustu leiktíð og er til alls líklegt á komandi tímabili undir stjórn Friðriks Inga Rúnarssonar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×