Íslenski boltinn

Grétar Snær rif­beins­brotinn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Grétar Snær Gunnarsson í leik með FH.
Grétar Snær Gunnarsson í leik með FH. Vísir/Hulda Margrét

Grétar Snær Gunnarsson, leikmaður FH í Bestu deild karla, er með þrjú brotin rifbein eftir leik sinna manna gegn Vestra á Ísafirði í gær, sunnudag.

Þetta staðfesti Grétar Snær í stuttu viðtali við Fótbolti.net. Þar segir hann að um sé að ræða meiðsli sem taki fjórar til átta vikur á að jafna sig á.

„Grétar Snær þarf að fá aðshlynningu eftir viðskipti við Ibra Balde,“ segir í textalýsingu Vísis frá leiknum. Atvikið átti sér stað á 10. mínútu leiksins og var Grétar Snær farinn af velli fjórum mínútum síðar.

Ljóst er að um mikla blóðtöku er að ræða fyrir FH sem hefur verið að gera sig gildandi í baráttunni um Evrópusæti. Grétar Snær hefur komið við sögu í 12 leikjum til þessa á leiktíðinni. 

Tíðindin draga líklega úr líkunum á að FH leyfi Ásbirni Þórðarsyni og Gyrði Hrafni Guðbrandssyni að fara heim í KR nú á meðan félagaskiptaglugginn er enn opinn.Báðir leikmenn hafa þegar samið við KR þar sem samningur þeirra við FH rennur út að tímabilinu loknu.

FH er í 4. sæti Bestu deildar karla með 28 stig að loknum 16 leikjum, jafn mörg stig og Valur sem er í 3. sæti með leik til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×