Íslenski boltinn

Heldur kyrru fyrir í Kópa­vogi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Patrik fer ekki fet.
Patrik fer ekki fet. vísir/Einar

Færeyski framherjinn Patrik Johannesen verður áfram leikmaður Breiðabliks þrátt fyrir fréttir þess efnis að hann væri á förum frá félaginu.

Það var greint frá því nýverið að FH væri í þann mund að sækja Patrik úr Kópavoginum. Hann hafði ekki verið að spila mikið með Blikum og ku hafa verið í leit að meiri spilatíma.

Karl Daníel Magnússon, deildarstjóri afrekssviðs hjá Breiðabliki, staðfesti í samtali við Fótbolti.net að tilboð hefði borist. Eftir samtal við Patrik „var niðurstaðan sú að hann verði áfram hjá Breiðabliki.“

Hinn 28 ára gamli Patrik varð fyrir því áfalli að slíta krossband snemma á síðasta ári og missti því af öllu tímabilinu 2023. Hann hefur komið sögu í 14 leikjum hjá Blikum í ár en aðeins skorað eitt mark og gefið tvær stoðsendingar.

Alls hefur hann skorað 24 mörk í 47 leikjum hér á landi fyrir Breiðablik og Keflavík. Þá hefur Patrik spilað 23 A-landsleiki fyrir Færeyjar og skorað eitt mark. Patrik er samningsbundinn Blikum út tímabilið 2025.

Breiðablik mætir Drita frá Kósovó ytra í síðari leik liðanna í forkeppni Sambandsdeildar Evrópu á morgun, þriðjudag. Útsending Stöðvar 2 Sport hefst klukkan 14.30 og leikurinn klukkan 15.00.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×