Umrædd ljósmynd var birt á hinum vinsæla Facebook-hóp Matartips og vakti þar nokkra athygli. Með myndinni fylgdi færsla þar sem notandi skrifaði um meinta upplifun sína af veitingakeðjunni og að hafa fengið hráan kjúklingabita þar fyrir tveimur árum. Færslan var skrifuð á ensku og síðar eytt úr Facebook-hópnum en þá hafði DV gert hana að umfjöllunarefni sínu.
Noti ekki lengur sömu box undir kjúklinginn
KFC svarar fyrir myndina í samhljóða færslum á Facebook-síðu sinni og Matartips. Telur hópurinn yfir 55 þúsund meðlimi sem ræða flestallt sem viðkemur mat.
„Á Matartips segist prófíll undir nafninu Ryan Fendi hafa keypt hráan kjúkling í Keflavík og birtir hann þessa mynd með. KFC afgreiðir ekki lengur veitingar í sambærilegum boxum og sést á myndinni. Þá má með einfaldri leit finna myndina og sjá að hún birtist fyrst á samfélagsmiðlinum Imgur í maí 2016.“ Þá hvetja forsvarsmenn KFC á Íslandi viðskiptavini til að láta starfsmenn vita ef máltíð þeirra eða veitt þjónusta stendur ekki undir væntingum.

Umrædd ljósmynd var endurbirt í frétt DV um færsluna á Matartips sem síðar var fjarlægð af vef miðilsins. Virðist myndin vera sú sama og fulltrúar KFC benda á að hafi verið sett inn á netið árið 2016.

Fréttin hefur verið uppfærð með skjáskoti af færslu KFC eftir að færsla fyrirtækisins var fjarlægð af Facebook-síðu þess.