Upp­gjörið: Valur - Vllaznia 2-2 | Læti undir lokin og liðin skilja jöfn

Árni Jóhannsson skrifar
Guðmundur Andri Tryggvason skoraði sitt fyrsta mark í sumar.
Guðmundur Andri Tryggvason skoraði sitt fyrsta mark í sumar. Vísir / Anton Brink

Valur gerði 2-2 jafntefli við Vllaznia frá Albaníu í fyrstu umferð undankeppni Sambandsdeildarinnar. Valsmenn gáfu tvö klaufaleg mörk frá sér en gestirnir misstu mann af velli og misstu leikinn í jafntefli undir blálokin. 

Valsmenn byrjuðu leikinn betur en bæði lið áttu fína kafla og var það ljóst að heimamenn ætluðu upp kantana og Vllaznia ætlaði að reyna að fara þjóðveg eitt. Bæði lið gerðu vel í að skapa stöður en fyrirgjafir og skot virkuðu ekki sem skildi.

Á 12. mínútu dró þó til tíðinda þegar kantspil Vals bar ávöxt. Fyrirgjöf frá hægri fór alla leið yfir á vinstri þar sem Sigurður Egill náði að renna boltanum út í teig á Guðmund Andra Tryggvason sem náði mjög góðu skoti fjærhornið alveg út við stöng. Valsmenn virkilega ánægðir í stúkunni og á vellinum og séð fyrir sér sigurinn í hyllingum.

Guðmundur Andri Tryggvason kom Val yfir.Vísir / Anton Brink

Þeir voru þó ekki lengi í paradís því Ardit Krymi jafnaði fyrir albanska liðið 11 mínútum seinna. Vllaznia fékk aukaspyrnu á hægri kanti sem fór inn á miðjan teig þar sem Krymi var grunsamlega einn á auðum sjó og skallaði í netið. Frederik í markinu hreyfði hvorki legg né lið enda ekkert fyrir hann að gera í góðum skallanum.

Valsmenn fagna markiVísir / Anton Brink

Við þetta jafnaðist leikurinn enda fengur Albanarnir aukið sjálfstraust og hálfleikurinn sigldi í höfn í jafnri stöðu.

Valsmenn tóku völdin í seinni hálfleik en náðu ekki að nýta sér þau færi sem sköpuðust. Ekkert benti til þess að gestirnir myndu gera eitthvað en mögulega er leikform þeirra komið styttra á veg enda er albanska deildin ekki byrjuð. Það var því reiðarslag fyrir Val að fá á sig mark og þá sérstaklega vegna þess að gestirnir voru orðnir einum færri.

Valsmenn gerðu sig seka um mistök í öftustu línu sinni sem varð til þess að Kevin Dodaj vann boltann og ca. tveimur metrum frá D boganum lét hann skot ríða af. Boltinn spýttist af grasinu og í hliðarnetið innan frá og má örugglega setja spurningarmerki hvor Frederik Schram hafi ekki átt að gera betur. 

Ósvikin gleði braust út þegar Kevin Dodaj kom gestunum yfir undir lok leiksins.Vísir / Anton Brink

Valsmenn reyndu eins og þeir gátu að jafna metin og fengu til þess sex mínútur í uppbótartíma sem urðu síðan lengri eftir að fyrirliði Vllaznia Bekim Balaj þurfti á aðhlynningu að halda. Það hentaði Val vel sem skoraði jöfnunarmark þegar níu mínútur voru komnar fram yfir venjulega leiktíma. 

Loksins náðu heimamenn að nýta fast leikatriði og Lúkas Logi Heimisson náði að pota boltanum yfir línuna. Það ætlaði allt um koll að keyra. Valsmenn trylltust af gleði en stuðningsmenn Vllaznia sturluðust úr bræði. Héldu því fram að tíminn ætti að vera löngu liðinn en mínúturnar sem bættust við voru í raun þeim að þakka eftir aðhlynningu á sínum leikmanni.

Atvik leiksins

Hér verðum við að setja eftirmála leiksins en það sauð allt upp úr í stúkunni þegar flautað var til leiksloka. Albönsku stuðningsmennirnir voru allt annað en sáttir og þurfti gæslan að stíga inn í til að reyna að róa menn niður. Sögur af flöskum fljúgandi og aðsúg að dómaranum eru komnar fram og er vitað að UEFA fær efni til sín sem skoðað verður með hegðun stuðningsmanna í huga. Ekki höfum við fengið fregnir af meiðslum en talað er um að stjórnarmönnum Vals hafi verið hótað þegar þeir koma til Albaníu í næstu viku.

Stuðningsmenn Vllaznia höfðu hátt og voru svo ekki sáttir í lok leiksins.Vísir / Anton Brink

Stjörnur og skúrkar

Lúkas Logi Heimisson er hetja leiksins enda jafnaði hann metin í blálokin. Það verður þó að segja að varnarmenn heimamanna þurfi að taka skúrka nafnbótina núna því það hefði verið hægt að koma í veg fyrir bæði mörk gestanna.Dómarinn

Arnar Grétarsson hafði orð á því að hann hefði búist við að Norður Íri myndi leyfa meiri hörku en hann gerði. Mikið flautað og aukaspyrnur oft dæmdar þegar lítil ástæða þótti til. Hann hélt þó línu og hallaði á hvorugt liðið. Hann má eiga það. Sex í einkunn.

Umgjörð og stemmning

Umgjörðin á Hlíðarenda var alveg til fyrirmyndar og stemmningin fylgdi. Margir stuðningsmenn albanska liðsins létu vel í sér heyra og það kveikti í stuðningsmönnum Vals. Það setti hinsvega ljótan blett á leikinn lætin sem voru í lok hans.

Viðtöl:

Jakob Franz: Stundum dettur boltinn bara inn og stundum ekki

Jakob Franz fagnar jöfnunarmarkinu vel og innilega.Vísir / Anton Brink

Varnarmaðurinn Jakob Franz Pálsson var eins og þjálfari sinn svekktur en að sama skapi ánægður að hafa náð í jafnteflið í lokin.

„Mjög mikið svekkelsi, þeir voru orðnir einum færri og við eigum að vera búnir að klára þetta. Fáum þetta klaufamark en það var geggjað að ná í þetta jöfnunarmark í lokin sem er skárra en að tapa. Samt svekkjandi.“

Valsmenn fengu dálítið af færum og hlýtur það að vera svekkjandi að hafa ekki náð að nýta það betur í kvöld.

„Mjög svekkjandi að ná ekki að nýta þessi færi betur því ef við hefðum gert betur þar þá hefðum við unnið þennan leik með tveimur eða þremur mörkum. Stundum dettur boltinn bara inn og stundum ekki. Gerðist ekki hjá okkur í kvöld.“

Hvað sér Jakob í þessum andstæðingum sem Valur getur nýtt sér út í Albaníu?

„Við verðum bara að vera meira aggressívir og nýta færin okkar og passa upp á klaufamörkin. Ef við fáum ekki þessi mörk á okkur hefðum við unnið 2-0.“

Voru bæði mörkin sem Valur fékk á sig klaufamörk?

„Já við missum boltann óheppilega hérna í öftustu línu og hann neglir boltanum í hornið. Það á ekki að gerast en það er bara eins og það er.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira