Innlent

Mátti ekki pissa á starfs­mann svo hann meig á glugga

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Verkefni lögreglu voru vægast sagt fjölbreytt í dag. 
Verkefni lögreglu voru vægast sagt fjölbreytt í dag.  Vísir/Vilhelm

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var í dag tilkynnt um mann sem hótaði að pissa á starfsmann verslunar í miðbæ Reykjavíkur. Þegar manninum var vísað út meig hann á glugga verslunarinnar. 

Þetta kemur fram í fréttaskeyti lögreglunnar með verkefnum frá klukkan fimm í morgun til klukkan fimm síðdegis. 

Hrakfallabálkar víða

Mikið var um tilkynningar um fólk sem hafði dottið eða hrasað og hlotið áverka. Í hverfum 101, 104 og 105 var tilkynnt um menn sem höfðu dottið utandyra og hlotið áverka á höfði, mjöðm eða fæti. Í hverfi 103 var tilkynnt um mann sem hafði hrasað í stiga og hlotið áverka á fæti. 

Þá var tilkynnt um mann sem hafði dottið um hundinn sinn í hverfi 220 í Hafnarfirði og hlotið áverka á handlegg. 

Grunsamleg taska og grunsamlegar mannaferðir

Lögreglustöð 2, sem sinnir verkefnum í Hafnarfirði og Garðabæ, var tilkynnt um mann sem hafði tjaldað í hverfi 210 í Garðabæ. Honum var vísað burt.

Þá var lögreglu tilkynnt um grunsamlega tösku í Kópavogi. Við skoðun var að sjá plástra og sárabindi í töskunni. Í Breiðholti var lögreglu tilkynnt um mann sem var ber að ofan í stigagangi. Sá var farinn þegar lögreglu bar að garði. 

Í Árbæ var lögreglu tilkynnt um grunsamlegar mannaferðir. Það reyndust menn á leið til vinnu. Í Grafarvogi var lögreglu tilkynnt um nálar og sprautur nálægt matjurtagörðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×