Handbolti

„Miklar til­­finninga­­sveiflur sem tóku við“

Aron Guðmundsson skrifar
Elín Klara er ein af okkar fremstu handboltakonum. Hún fór mikinn með liði Íslands, skipað leikmönnum tuttugu ára og yngri, á HM á dögunum og ekki spurning um hvort heldur hvenær þessi öflugi leikmaður, sem leikur fyrir Hauka hér heima, heldur út í atvinnumennskuna.
Elín Klara er ein af okkar fremstu handboltakonum. Hún fór mikinn með liði Íslands, skipað leikmönnum tuttugu ára og yngri, á HM á dögunum og ekki spurning um hvort heldur hvenær þessi öflugi leikmaður, sem leikur fyrir Hauka hér heima, heldur út í atvinnumennskuna. Vísir / Einar

Elín Klara Þor­kels­dóttir var valin í úr­vals­lið HM í hand­bolta fyrst ís­lenskra kvenna á dögunum eftir frá­bæra frammi­stöðu með undir tuttugu ára lands­liði Ís­lands sem náði besta árangri ís­lensks kvenna­lands­liðs á stórmóti með því að tryggja sér sjöunda sæti mótsins. Elín segir kjarnann sem myndaði lið Ís­lands á mótinu ein­stakan. Per­sónu­leg frammi­staða Elínar, sem er leik­maður Hauka, á HM mun án efa varpa kast­ljósinu á hana. Elín er hins vegar ekki á leið út í at­vinnu­mennsku alveg strax.

„Maður er alveg enn þá svo­lítið hátt uppi. Við erum svo til ný­komnar heim frá Norður-Makedóníu. Þetta var alveg frá­bær lífs­reynsla og ég held að við séum allar sáttar með þennan árangur,“ segir Elín Klara og stelpurnar sem mynduðu þetta undir tuttugu ára lands­lið Ís­lands geta svo sannar­lega verið stoltar af sinni fram­göngu á HM.

Geta unnið stóru liðin

Ísland endaði í sjöunda sæti á HM, besti árangur ís­lensks kvenna­lands­liðs á stór­móti í sögunni, en við skulum ekki gleyma því að stelpurnar okkar voru ekki langt frá því að tryggja sér sæti í undan­úr­slitum mótsins og þar með leik um medalíu á mótinu.

Íslenska landsliðið, skipað leikmönnum tuttugu ára og yngri, á góðri stundu á HMMynd: HSÍ

Því að í átta liða úr­slitunum mættust lið Ís­lands og Evrópu­meistara Ung­verja­lands þar, leikur sem að kjarnaði bar­áttuna sem býr í ís­lenska liðinu því eftir að hafa verið sjö mörkum undir í hálf­leik vann Ís­land sig til baka inn í leikinn og þvingaði fram fram­lengingu. Þar reyndust Ung­verjarnir hlut­skarpari en ís­lenska liðið var ekki langt frá því að slá Evrópu­meistarana úr leik.

„Í þessum leik mættum við svo­lítið undir í seinni hálf­leik en náum ein­hvern veginn að jafna þetta. Rosa­legur leikur og ó­trú­lega skemmti­legur. Ég þori hins vegar alveg að halda því fram að í þessi topp átta sæti á mótinu eru bara skipuð liðum sem eru mjög jöfn. Flestir leikir á milli þeirra að enda með eins eða tveggja marka mun í aðra hvora áttina. Þetta er alveg hníf­jafnt þarna uppi og við sáum þarna að við eigum séns í öll þessi lið.“

Niður­staðan sjöunda sæti, besti árangur ís­lensks kvenna­lands­liðs á stór­móti. Var árangurinn sem þið náðuð á þessu móti yfir þeim væntingum sem þið höfðuð fyrir mót?

„Nei, kannski ekki. Það gekk náttúru­lega ó­trú­lega vel. Margt sem að gekk upp hjá okkur. Fyrir HM tókum við þátt á æfinga­móti og ég tel að það hafi hjálpað okkur svo­lítið. Við tókum þar ein­mitt æfinga­leik á móti Rúmeníu, sem hefur yfir að skipa mjög sterku liði, og þar sáum við að við höfum það alveg í okkur að geta unnið þessi stóru lið. Ég held að það hafi svo hjálpað okkur mikið á HM. Við fórum inn í þetta mót fullar af trú. Það gekk bara frekar vel verð ég að segja.“

Geta gengið stoltar frá borði

Ný­af­staðið heims­meistara­mót var síðasta stór­mótið hjá góðum kjarna liðsins með undir tuttugu ára lands­liðinu og hafa vin­áttu­böndin sem myndast hafa milli leik­manna liðsins orðið mjög sterk.

„Við erum búnar að vera saman á þessari veg­ferð undan­farin fjögur ár. Þetta er alveg ein­stakur hópur. Liðs­heildin og sam­heldnin í liðinu er frá­bær. Við erum allar ó­trú­lega góðar vin­konur. Liðs­heildin skiptir ó­trú­lega miklu máli ef þú ætlar þér að ná góðum árangri.

Í síðasta leik mótsins gegn Sviss vorum við allar orðnar ó­trú­lega þreyttar, á ellefta leik, og okkur langaði ó­trú­lega mikið að toppa árangurinn og ná sjöunda sæti mótsins. Ég er bara virki­lega stolt af því að við höfum náð því og tekið leikinn. Það voru miklar til­finninga­sveiflur sem tóku við eftir þann leik inn í klefa. Ég tel okkur geta gengið mjög stoltar frá borði.“

Elín Klara hefur einnig gert sig gildandi með A-landsliði Íslands og er fastamaður í því liði sem mun síðar á þessu ári taka þétt á Evrópumóti A-landsliða.Vísir/Anton Brink

„Hefur stóra þýðingu upp á framhaldið að gera“

Sjálf var Elín Klara mögnuð á mótinu fyrir ís­lenska lands­liðið. Hún varð tólfti marka­hæsti leik­maður mótsins með 40 mörk í átta leikjum en hún nýtti 67 prósent skota sinna. 29 af 40 mörkum hennar komu eftir gegnum­brot. Hún fiskaði líka sjö leik­menn af velli í tvær mínútur. Frammi­staða sem sá til þess að hún var valin í úr­vals­lið mótsins. Lið sem enginn leik­maður ís­lensks kvenna­lands­liðs í hand­bolta frá upp­hafi hefur verið valinn í á HM.

Hefur það ein­hverja þýðingu fyrir þig?

„Já, al­gjör­lega. Ég er mjög stolt af því. Þetta mót gekk bara mjög vel fyrir sig fyrir mig heilt yfir líkt og það gerði fyrir liðið. Þetta hefur alveg stóra þýðingu fyrir mig og er gaman upp á fram­haldið að gera.“

Elín Klara í leik með HaukumVísir/Hulda Margrét

Talandi um fram­haldið þá ætti að þykja nokkuð ljóst að með frammi­stöðu sinni á HM hafi Elín Klara varpað kast­ljósinu á sjálfa sig. Elín er leik­maður Hauka í Olís deildinni og hefur síðast­liðin tvö tíma­bil verið valin besti leik­maður deildarinnar.

Stefnirðu að því að leika á­fram á Ís­landi á næsta tíma­bili eða ertu farin að horfa út fyrir land­steinana?

„Mig langar mjög mikið að fara út en tek alla­vegana eitt tíma­bil í við­bót hér heima. Sam­hliða hand­boltanum er ég að stunda nám í véla­verk­fræði við Há­skólann í Reykja­vík og langar að reyna klára BS gráðuna í því. Stefnan er þó að fara út í at­vinnu­mennsku. Eitt tíma­bil hér heima í við­bót alla­vegana og sjá svo til. Ég er alveg farin að hugsa þetta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×