Íslenski boltinn

Guðni: Þurftum að fá mark á okkur til þess að hafa nennt að standa í þessu

Andri Már Eggertsson skrifar
Guðni Eiríksson, þjálfari FH, á hliðarlínunni í leik kvöldsins.
Guðni Eiríksson, þjálfari FH, á hliðarlínunni í leik kvöldsins. Vísir/diego

FH vann sannfærandi 4-1 sigur gegn Tindastóli. Guðni Eiríksson, þjálfari FH, var þó ekki í skýjunum þar sem honum fannst liðið gefa allt of mikið eftir í stöðunni 2-0.

„Byrjunin var sterk og við komumst 2-0 yfir. Ég var ánægður með fyrri hálfleikinn eins ánægður og ég var með fyrri hálfleikinn, var ég ekki ánægður með seinni hálfleikinn,“ sagði Guðni eftir leik og útskýrði af hverju hann var ósáttur með síðari hálfleik liðsins.

„Að við skulum hafa þurft mark frá Tindastóli til þess að hafa nennt að standa í þessu aftur var algjör óþarfi. Boltinn fór í stöng og slá hjá okkur. Það var ekki gott hvernig leikmenn spiluðu í byrjun seinni hálfleiks þar sem þeir gerðu aulamistök trekk í trekk. Auðvitað er ég ánægður með 4-1 sigur ég ætla ekki að hljóma eins og hrokagikkur en ég var ekki ánægður með margt í seinni hálfleik.“

Guðni gerði breytingu á skýrslu rétt fyrir leik þar sem Jónína Linnet datt út og Thelma Lóa Hermannsdóttir kom inn í byrjunarliðið.

„Jónína meiddist í upphitun og við þurftum að gera þessa breytingu áður en leikurinn hófst og ég var mjög ánægður með hennar framlag sérstaklega í fyrri hálfleik. Einnig vil ég hrósa varamönnum liðsins sem komu inn á og hjálpuðu liðinu.“

Guðni var ekki sáttur með markið sem Jordyn Rhodes skoraði og minnkaði muninn í 2-1 þar sem hún komst heldur auðveldlega í gegnum vörn FH.

„Það var svo margt í aðdraganda marksins áður en hún skoraði og mínúturnar þar á undan voru ekki góðar. FH liðið var ólíkt sjálfum sér og einfaldar sendingar voru að klikka. Þetta var lélegt og dapurt eins og ég var ánægður með byrjunina,“ sagði Guðni að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×