„Það sem við erum með rannsóknar er kynferðisbrot. Ég veit ekki til þess að það sé verið að rannsaka neitt innbrot sem er þessu tengt,“ segir Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Fram kom í tilkynningu lögreglunnar á mánudag að lögreglan væri með meint kynferðisbrot í Hafnarfirði til rannsóknar. Tilkynning hafi borist lögreglu á áttunda tímanum í gærmorgun. Þrír hafi verið handteknir en svo sleppt eftir yfirheyrslu. Mennirnir eru allir þrír farnir frá landi með togaranum en hann sigldi á brott í gær.
Grímur segir rannsókn málsins ganga vel. Enginn sé í haldi vegna málsins.
Vildi ekki tjá sig frekar
Greint var frá því fyrr í dag að Frans Heilmann útgerðarstjóri Sigguk A/S, sem er undir hatti Polar Seafood, hafi sagt í grænlenskum miðlum að rannsókn lögreglu sneri að innbroti, ekki kynferðisbroti.
„Þetta snýst um tilkynningu um þjófnað um borð í Polar Nanoq,“ segir Heilmann í samtali við Sermitsiaq, sem er stærsti fjölmiðill Grænlands.
Þegar Vísir falaðist eftir samtali við Frans Heilmann fyrr í dag sagðist hann að ráði lögmanna sinna ekki geta tjáð sig meðan frekari rannsókn á þeirra vegum hefur farið fram.