Bjarki Steinn spilaði allan leikinn í hægri bakvarðarstöðunni og var frammistaða hans til fyrirmyndar gegn erfiðum andstæðingi. Hann hafði áður spilað tvo landsleiki, í æfingaleikjum gegn Suður-Kóreu og Sádi-Arabíu.
Landsliðsþjálfarinn hrósar honum í hástert þar sem Bjarki fór fjallabaksleiðina í landsliðið.
„Það er ferðalagið hans sem gerir þetta áhugavert. Hann fór niður í Seríu C á láni frá Venezia til að spila með Foggia. Enginn vill búa í Foggia. Hann lifði það af, kom aftur til Venezia og hefur gert vel. Þjálfarinn þar treysti honum til að spila í mikilvægum umspilsleikjum um sæti í Seríu A og það tókst,“ sagði Hareide á blaðamannafundi síðdegis og bætir við:
Sjá einnig:
Daníel Leó ekki með á æfingu landsliðsins
„Hann fór erfiðu leiðina og mér líkar við hugarfarið hans. Þegar við settum hann inn á Wembley blómstraði hann. Mér líkar við leikmenn með sterkan karakter.“
Blaðamannafundinn má sjá í heild sinni að ofan.
Ísland og Holland mætast klukkan 18:45 annað kvöld. Leikurinn verður í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport.