Síðustu daga hefur hraun runnið hægt norðan við og meðfram Sýlingarfelli í átt að Grindavíkurvegi. Í tilkynningu frá Veðurstofunnui sagði að í morgun hafi framskriðið aukist og ljóst væri að hraunstraumurinn renni ákveðið í átt að Grindavíkurvegi norðan varnargarða við Svartsengi. Hraun rann að og yfir Grindavíkurveg á ellefta tímanum í morgun.
Þorvaldur Þorvaldsson segir að áhugaverð þróun hafi orðið í hraunflæðinu í dag á Facebooksíðunni Rannsóknareining í eldfjallafræði og náttúruvá, Háskóli Íslands.
Tæming polls geti ekki útskýrt breytinguna
Hann segir að hrauntaumurinn, sem liggur norðan við Sýlingarfell, hafi tekið kipp og flætt hafi einu sinni enn yfir Grindavíkurveg norðan Svartsengis.
Samtíma þessu hafi hraunpollurinn sem er efst í hraunánni, sem liggur í suður frá gígnum við Hagafjall tæmst.
„En þessi tæming getur ekki verið orsökin fyrir aukningunni á hraunflæðinu norðan við Sýlingarfell! Einfaldlega vegna þess að pollurinn tæmdist til suðurs eftir hraunafarveginum sem liggur í þá áttina, en hraunafarvegurinn sem fæðir hrauntauminn norðan við Sýlingafell liggur til norðurs frá gígnum.“
Breyting á gígnum olli breytingu á hraunflæðinu
Þannig sé líklegasta sviðsmyndin sú að það hafi lokast fyrir, að minnsta kosti tímabundið, flæði út úr gígnum að sunnaverðu og þess vegna hafi pollurinn tæmst. Á sama tíma hafi allt hraunrennslið beinst til norðurs út um farveginn sem þar liggur.
„Sem sagt breytingin í hraunfæðinu orsakaðist af breytingum og aðlögun á aðstæðum í gígnum.“