Sveitarstjóri í Langanesbyggð, Björn S. Lárusson, segir það hafa verið starfsfólki grunnskólans mikið áfall þegar upp komst um meintan fjárdrátt fyrrverandi skólastjóra. Hann segir ákæru í takt við væntingar sveitarstjórnar um málið. Konan sagði upp störfum árið 2019 en málið komst upp þegar nýr skólastjóri tók við störfum. Fyrst var greint á RÚV.
Fram kemur í frétt RÚV um málið að upphæðirnar sem voru millifærðar hafi verið á bilinu 9.500 krónur upp í 1,4 milljón króna. Alls var um að ræða 64 millifærslur af reikningum skólans og tíu millifærslur af reikningi félagsmiðstöðvarinnar að verðmæti um 600 þúsund.

„Þetta mál kemur upp fyrir mína tíð sem skrifstofu- og sveitarstjóri. En auðvitað höfum við fylgst með málinu hjá héraðssakóknara. Okkur finnst þetta hafa tekið dálítið langan tíma enda málið örugglega umfangsmikið. En þetta hefur legið þungt á sveitarfélaginu, sérstaklega starfsliði skólans. En nú er þetta komið fram og komin fram ákæra. Svo sjáum við hvernig henni reiðir af,“ segir Björn í samtali við fréttastofu.
„Þetta er eiginlega í tvennu lagi. Það er annars konar skólinn og hins vegar félagsmiðstöðin sem börnin voru í. Þó það sé mikið minni upphæð þá skiptir hún máli.“
Konan sótti peninginn af reikningum sem hún hafði prókúru fyrir og millifærði yfir á bankareikning í sinni eigu. Björn segir búið að breyta verklagi til að tryggja að þetta komi ekki aftur fyrir.
„Því var breytt strax og málið kom upp, af forverum mínum. Nú er komið á kerfi sem kemur í veg fyrir þetta.“
Skólinn alltaf fjármagnaður
Björn segir málið í sjálfu sér ekki hafa haft mikil áhrif á rekstur skólans.
„Hann er auðvitað bara fjármagnaður alltaf af fjárhagsáætlun en auðvitað er þetta áfall fyrir okkur. Áfall fyrir fólkið þó það séu ekki endilega peningarnir sem hafa skipt máli fyrir sveitarfélagið í sjálfu sér. Þó það sé alltaf þungt að fá svona meintan fjárdrátt á sig.“
Fréttin hefur verið uppfærð.