Peningastefnunefnd Seðlabankans ákvað í morgun að halda meginvöxtum sínum óbreyttum í 9,25 prósentum, tíunda mánuðinn í röð. Það er því útlit fyrir að vextirnir verði 9,25 prósent í að minnsta kosti ár því næsti reglulegi vaxtaákvörðunardagur er ekki fyrr en í ágúst.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir verðbólgu enn mikla, eða sex prósent, og verðbólguvæntingar væru einnig enn miklar.

„Það er bara mikill verðbólguþrýstingur og það er mikið í gangi hjá okkur,“ segir Ásgeir.
Um áramótin spáði Seðlabankinn að meðalverðbólga á þessu ári yrði 4,1 prósent. Nú spáir bankinn því hins vegar að verðbólgan verði að meðaltali 5,9 prósent á þessu ári, eða 1,8 prósentum meiri. Baráttan við verðbólguna er því að ganga mun hægar en men vonuðu.
Þórarinn G. Pétursson aðalhagfræðingur Seðlabankans segir mikinn innflutning á vinnuafli og mikinn fjölda ferðamanna eiga þátt þenslunni í hagkerfinu. Innflutningur á vinnuafli væri líka afleiðing af spennunni í þjóðarbúinu.

„Þetta innflutta vinnuafl þarf auðvitað mat, húsaskjól og allt það. Það eykur auðvitað eftirspurn þeirra. Þannig að þetta er allt að bíta í skottið á sér,“ segir Þórarinn.
Ásgeir segir áhrif hóflegar kjarasamninga ekki að fullu komin fram. Áhrif jarðhræringanna á Reykjanesi væru hins vegar farin að koma fram bæði á húsnæðismarkaði og í ríkisfjármálum.
„Það er líka í rauninni verið að færa heilt eitt prósent þjóðarinnar um set. Það er verið að færa til heilt sveitarfélag. Það hefur áhrif á fasteignamarkaðinn. Það eru tiltölulega miklar sviftingar og við höfum séð gríðarlegan hagvöxt,“ segir seðlabankastjóri.
Þannig var endurmetinn hagvöxtur árið 2022 mun meiri en áður var talið eða 8,9 prósent en ekki 7,2 prósent. Mesti hagvöxtur frá árinu 1971. Krafturinn í hagkerfinu var því meiri en talið var og segir Ásgeitr að seðlabankinn hefði hækkað vexti fyrr og hraðar hefði hann haft þessar upplýsingar fyrir tveimur árum.
„Við erum að ná árangri. Einkaneysla er að dragast saman. Þetta er á réttri leið en þetta gengur hægar,“ segir Ásgeir Jónsson. Það væri hins vegar meginverkefni Seðlabankans að ná verðbólgunni niður og með því að halda meginvöxtum óbreyttum undirstrikaði bankinn staðfestu sína í þeim efnum. Til að forsendur nýgerðra kjarasamninga haldi verði að ná verðbólgunni niður.