Í dag réðust tveir menn inn í verslun Reykjavíkurapóteks við Seljaveg í miðbæ Reykjavíkur. Einn annar maður beið fyrir utan á meðan mennirnir tveir ógna tveimur starfsmönnum verslunarinnar með eggvopnum. Ólafur var sjálfur ekki á staðnum en hafði rætt við starfsmennina um atvikið.
„Annar þeirra fer inn fyrir borðið, öskrar á starfsmanninn og rýkur í lyfjaskápana sem eru hjá okkur. Honum verður ekki ágengt þar þannig hann tekur starfsmanninn hálstaki. Þvingar hann til að sýna sér hvar ákveðin lyf eru sem hann hafði áhuga á. Hann var leiddur að þeim stað og tók þaðan einhverja pakka af ávana- og fíknilyfi. Svo rjúka þeir út í beinu framhaldi þegar þeir voru búnir að þessu,“ segir Ólafur.
Áfall fyrir starfsmennina
Lögreglan var fljót á staðinn og mennirnir voru handteknir skömmu síðar á Vesturgötu. Ólafur segir þetta auðvitað reyna á starfsmennina sem lentu í ráninu.
„Það er ekki ljóst hver áhrifin verða á þá. Það er áfall að verða fyrir vopnuðu ráni. Sérstaklega ef það er þannig að það er annað hvort gengið í skrokk á fólki eða það tekið fantatökum,“ segir Ólafur.
Hann vonast til þess að íslenskt samfélag sé ekki að þróast í þá áttina að það þurfi að vera með einstakling í vinnu til að verjast vopnuðum ránum.
„Það verður vonandi aldrei að veruleika. Ég treysti því. Það væri að mínu mati miður ef við þyrftum að hafa öryggisverði sem bregðast við vopnuðum ránum,“ segir Ólafur.
Tvisvar áður verið rændur
Hann hefur verið í apótekarabransanum í þónokkur ár og hefur tvisvar áður lent í því að apótek í hans eigu séu rænd.
„Það var sami einstaklingurinn í bæði skiptinn og hann náðist ekki. Það gerðist með tiltölulega stuttu millibili. Það eru nokkuð mörg ár síðan. Það hafa nokkrir lyfjafræðingar hringt í mig í dag sem hafa lent í vopnuðum ránum. Það eru dæmi um vopnuð rán,“ segir Ólafur.