Innlent

Leyfis­lausar tjald­búðir og sund­sprettur eftir lokun

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla sinnti fjölbreyttum verkefnum í gærkvöldi og nótt.
Lögregla sinnti fjölbreyttum verkefnum í gærkvöldi og nótt. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti fjölbreyttum verkefnum í gærkvöldi og nótt og var meðal annars kölluð til vegna einstaklinga sem höfðu slegið upp tjöldum í miðborginni.

Ekki er greint frá því í yfirliti lögreglu yfir verkefni næturinnar hvar tjöldin var að finna en um var að ræða samkomutjald og fimm svefntjöld. „Lögregla ræddi við forsvarsmann tjaldbúðanna sem gátu ekki framvísað tilsettu leyfi frá Reykjarvíkurborg,“ segir í yfirliti lögreglu.

Tvær tilkynningar bárust um einstaklinga sem voru til vandræða á veitingastöðum, annars vegar í póstnúmerinu 103 og hins vegar í póstnúmerinu 105. Í fyrra tilvikinu var viðkomandi í áfengisvímu en í seinna tilvikinu reyndist viðkomandi árásargjarn í garð starfsfólks og gesta.

Drukkna var ekið heim og hinum vísað út.

Einn var handtekinn í höfuðborginni grunaður um líkamsárás og annar grunaður um sölu og dreifingu lyfja. 

Þá barst tilkynning um ungmenni sem höfðu klifrað yfir grindverk og tekið sér sundsprett í almenningslaug eftir lokun en haft var samband við foreldra þeirra og þeir upplýstir um málið.

Lögreglu barst einnig tilkynning um eld á svölum fjölbýlishúss í Kópavogi en þar reyndist aðeins um að ræða mann að grilla.


Veistu meira um málin að ofan? Fréttastofa tekur við ábendingum á ritstjorn@visir.is. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×