Íslenski boltinn

KR fékk ungan Svía fyrir gluggalok

Valur Páll Eiríksson skrifar
Vesturbæingar vonast til að Moutaz Neffati létti undir meiðslavandræðum liðsins.
Vesturbæingar vonast til að Moutaz Neffati létti undir meiðslavandræðum liðsins. Mynd/KR

Meiðslum hrjáð lið KR náði að krækja í leikmann fyrir komandi átök í Bestu deildinni á lokadegi félagsskiptagluggans í gærkvöld. Þeir bregðast þannig við fámenni í framliggjandi stöðum á vellinum.

Leikmaðurinn sem um ræðir heitir Moutaz Neffati og er 19 ára gamall miðjumaður og hægri kantmaður. Hann kemur á lánssamningi frá Íslendingaliði Norrköping út júní með möguleika á framlenginu á þeim samningi.

KR tæklar þannig meiðslavandræði félagsins en leikmenn liðsins hafa hrokkið úr skaftinu hver af öðrum í upphafi móts. Í fyrsta leik fóru bæði Aron Sigurðarson og Hrafn Tómasson meiddir af velli. Hrafn er frá út leiktíðina en einhverjar vikur í Aron.

Theódór Elmar Bjarnason og Jóhannes Kristinn Bjarnason meiddust báðir gegn Fram í síðasta leik, sá síðarnefndi frá í þrjá mánuði hið minnsta en meiðsli Elmars léttvægari.

Luke Rae fór meiddur af velli í bikarleik gærkvöldsins við KÁ, en hann skoraði þar tvö mörk í 9-2 sigri.

Atli Sigurjónsson hefur þá verið meiddur í nánast allan vetur en hefur spilað án vandræða í upphafi móts og Benóný Breki Andrésson var meiddur í upphafi móts.

Næsti leikur KR er við Breiðablik að Meistaravöllum um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×