Viðskipti innlent

Farsímatekjur undir væntingum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Höfuðstöðvar Sýnar eru á Suðurlandsbraut 8.
Höfuðstöðvar Sýnar eru á Suðurlandsbraut 8. Vísir/Hanna

Reiknað er með því að EBIT afkoma Sýnar á fyrsta ársfjórðungi verði umtalsvert minni en samanborið við sama tímabil í fyrra eða sem nemur rúmum 308 milljónum króna. Þetta kemur fram í afkomuviðvörun til Kauphallar. Áætluð EBIT afkoma verður um 120 milljónir króna en var 428 á sama tíma í fyrra.

Í tilkynningu til Kauphallar segir að það sem valdi einkum minni afkomu sé lækkun á farsímatekjum um 138 milljónir króna ásamt hærri afskriftum sýningarrétta. 

„Eins og fram kom í árs- og árshlutareikningum félagsins fyrir árið 2023, þá var afskrift sýningarrétta lægri árið 2023 vegna endursamninga við birgja. Áhrif þess á 1. ársfjórðungi ársins 2023 námu 193 m.kr.,“ segir í tilkynningunni.

„Félagið hefur ráðist í hagræðingaraðgerðir á árinu sem munu í ríkara mæli koma fram í afkomu þess á seinni helming ársins. Frekari upplýsingar um áætluð áhrif hagræðingaaðgerða á árinu verða veittar í fréttatilkynningu í tengslum við birtingu árshlutauppgjörs félagins.“ 

Kostnaðaraðhald verði áframhaldandi verkefni félagsins á þessu ári, ásamt áherslu á aukinn vöxt og skilvirkni í rekstri. Árshlutauppgjör félagsins sé enn í vinnslu og geti tekið breytingum fram að birtingu. Árshlutauppgjör fjórðungsins verði birt eftir lokun markaða þann 7. maí.

Vísir er í eigu Sýnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×