Íslenski boltinn

Ekroth og þrír aðrir í banni í næstu um­ferð Bestu deildarinnar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ekroth í leik með Víkingum í sumar.
Ekroth í leik með Víkingum í sumar. Vísir/Hulda Margrét

Oliver Ekroth verður ekki í hjarta varnar Víkings þegar Íslandsmeistararnir mæta KA í 4. umferð Bestu deildar karla í fótbolta á sunnudaginn þann 28. apríl. Ekroth er í banni líkt og þrír aðrir leikmenn deildarinnar.

Hinn sænski Ekroth var úrskurðaður í eins leiks bann á fundi Aga- og úrskurðarnefndar KSÍ í dag. Hann hefur alls nælt sér í fjögur gul spjöld í leikjum Víkings í sumar. Þar er meðtalinn leikur Víkings og Vals í Meistarakeppni KSÍ.

Hinir þrír leikmennirnir sem eru á leið í bann sáu allir rautt í 3. umferð. Atli Hrafn Andrason, leikmaður HK, var rekinn af velli í 2-0 tapi liðsins gegn FH og verður ekki með þegar HK mætir Vestra.

Orri Seinn Stefánsson, miðvörður Fylkis, fékk að líta rauða spjaldið í 5-1 tapi Árbæinga gegn ÍA í Akraneshöllinni. Hann missir af leik Fylkis og Stjörnunnar í Árbænum. 

Þá fékk Bjarni Mark Antonsson tvö gul spjöld og þar með rautt þegar Valur tapaði 1-0 fyrir Stjörnunni. Bjarni Mark verður því fjarverandi þegar Valur og Fram mætast á mánudaginn.

Bjarni Mark var sendur í sturtu gegn Stjörnunni.Vísir/Diego

Fjórða umferð Bestu deildar hefst með tveimur leikjum klukkan 14.00 á sunnudag. Vestri mætir HK og ÍA mætir FH. Klukkan 16.15 sama dag mætast Víkingur og KA. Lokaleikur sunnudagsins er svo leikur KR og Breiðabliks. 

Á mánudaginn lýkur umferðinni með tveimur leikjum; Valur tekur á móti Fram og Fylkir tekur á móti Stjörnunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×