Í niðurstöðum alþjóðlegrar rannsóknar sem McKinsey gerði, má sjá að fleira telst til. Því eitt af því sem margfaldar líkurnar á kulnun fólks er eitruð vinnustaðamenning eða eitruð hegðun.
Það sem verra er, er að eitruð vinnustaðamenning virðist ríkja nokkuð víða. Því samkvæmt þessum niðurstöðum svöruðu að meðaltali einn af hverjum fjórum aðspurðra því að þeir upplifðu einhvers konar eitraða hegðun eða menningu á vinnustaðnum; hvar svo sem í heiminum McKinsey bar niður.
Í skýrslunni er eitruð hegðun á vinnustað skilgreind sem:
„Hegðun sem leiðir til þess að starfsmenn upplifa sig vanmetna, lítilsvirta eða óörugga, til dæmis vegna ósanngjarnrar eða niðrandi meðferðar, fordómar, niðurrif, niðurlægjandi samkeppni, meiðandi stjórnun og nánast siðlaus hegðun stjórnenda eða vinnufélaga.“
Að einn af hverjum fjórum skuli upplifa hegðun sem þessa á vinnustaðnum hlýtur að teljast sláandi. En til þess að setja niðurstöðurnar í samhengi við líkur á kulnun, má einnig sjá eftirfarandi margföldunaráhrif eitraðrar hegðunar á starfsfólk:
Fólk sem starfar í eitruðu umhverfi er átta sinnum líklegra til að lenda í kulnun eða upplifa kulnunareinkenni
Fólk sem starfar í eitruðu umhverfi er sex sinnum líklegra til að segjast ætla að reyna að skipta um starf innan næstu þriggja til sex mánaða.
Í skýrslu McKinsey segir að oft sé litið á kulnun fólks sem persónuleg vandamál þeirra sem glíma við kulnun. Hins vegar spyrja greinahöfundar hvort vinnustaðir séu að horfa rétt á vandann. Eða réttara sagt: Hvort verið sé að taka á réttu málunum?
Skýrsluna má sjá hér.