Íslenski boltinn

„Heyrði „skjóttu“ þannig ég lét bara vaða“

Árni Gísli Magnússon skrifar
Kjartan Kári í leik með FH.
Kjartan Kári í leik með FH. Vísir/Hulda Margrét

Kjartan Kári Halldórsson skoraði eitt mark og átti stóran þátt í öðru þegar FH vann 3-2 útisigur á KA í 2. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu. Mark Kjartans Kára kom á 58. mínútu og reyndist sigurmark leiksins. 

„Þetta var bara geggjaður sigur hjá liðinu. Við byrjuðum sterkt, síðan aðeins undir lok fyrri hálfleiks duttum við niður síðan í byrjun seinni fengum við strax mark á okkur en sýndum karakter í liðinu og náðum að klára þetta“.

KA jafnaði leikinn í 2-2 í upphafi síðari hálfleiks eftir að FH hafði komist í 2-0 forystu. Kjartan var þó ekki smeykur um að KA myndi ganga á lagið og klára leikinn á heimavelli.

„Nei, ég veit hvað við getum í fótbolta og við erum flinkir fram á við, við sýndum það í dag. Góðir varnarlega og geggjaður sigur.“

Kjartan skoraði sigurmark leiksins á 58. mínútu þegar hann lét vaða vel fyrir utan teig en Jajalo hefði líklega átt að gera betur í marki KA.

„Ég heyrði bara, ég veit ekki hvort það var Kjartan Henry (Finnbogason), en ég heyrði „skjóttu“ þannig ég lét bara vaða. Ég veit að ég er góður skotmaður og svo sá ég að markmaðurinn stal aðeins metrum í fjær þannig ég setti hann bara í nærhornið.“

Þú hlustar sem sagt á nafna þinn þegar hann er að gefa þér ráðleggingar?

„Já auðvitað, hann er náttúrulega markakóngur og hann elskar að skora mark þannig maður hlustar á hann, maður lærir af honum.“

„Bara fínar, mér finnst ekkert að þessu veðri, það er fínt veður hérna, en við erum bæta í þetta og okkur er að ganga betur og betur“, sagði Kjartan aðspurður hvað honum fyndist um fyrstu tvær umferðir mótsins.

„Þetta var fín frammistaða hjá mér og liðinu. Það sýndu það allir eins og undir lokin að við vorum allir að berjast fyrir hvorn annan þannig ég segi bara að allt liðið var flott,“ bætti Kjartan við í lokin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×