Síðustu ár hefur Helena Bergmann, dóttir Þorsteins stofnanda verslunarinnar, séð um reksturinn. Um tíma voru verslanirnar fjórar, ein í Hraunbænum, önnur á Laufásvegi, ein á Laugavegi og svo við Skólavörðustíg. Þeim þremur síðastnefndu hafði áður verið lokað og var verslunin í Hraunbæ síðasta hálmstráið.

„Ég greindist með mjög erfiðan sjúkdóm og læknarnir sögðu mér að loka og hætta. Það er erfitt en það er kannski kominn tími á þetta. Búinn að vera langur tími,“ segir Helena í samtali við fréttastofu.
Hún segir verslun almennt hafa breyst verulega mikið síðustu ár. Flestir versli nú mikið á netinu og fari minna út í búð. Fyrir nokkrum vikum var Helena með rýmingarsölu í versluninni.

„Það voru allir voða leiðir, en svona er þetta bara. Ekkert er eilíft. Kannski er gott að breyta til. Eiga sumarfrí og svona,“ segir Helena en hún hafði staðið vaktina í versluninni alla daga síðustu ár.
Helena og fjölskylda eru eigendur húsnæðisins sem verslunin var rekin í en hún segir það eiga eftir að koma í ljós hvað kemur þar í staðinn. Hún segist ekki hafa viljað afhenda reksturinn einhverjum öðrum.
„Þetta er bara svo mikið við fjölskyldan. Þetta er bara saga sem er búin,“ segir Helena.
